Fótbolti

Þjálfari Senegal svarar hinum um­deilda for­seta Napoli: „Erum ekki að berjast við fé­lögin“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aliou Cisse (til vinstri), þjálfari Senegal.
Aliou Cisse (til vinstri), þjálfari Senegal. EPA-EFE/KHALED ELFIQI

Aurelio De Laurentiis, hinn umdeildi forseti ítalska knattspyrnuliðsins Napoli, er hættur að kaupa afríska leikmenn nema þeir uppfylli eitt skilyrði. Þeir mega ekki spila á Afríkumótinu. Þetta telur Aliou Cisse, þjálfari Senegal, gjörsamlega fráleitt.

Laurentiis opinberaði skoðun sína fyrir skemmstu eftir að Napoli hafði selt miðvörðinn Kalidou Koulibaly, fyrirliða Senegal, til Chelsea.

Cisse ræddi við breska ríkisútvarpið, BBC, um málið og segir umræðuna vera á villigötum. Hann tók Suður-Ameríku sem dæmi en það segir enginn orð er leikmaður er valinn í brasilíska landsliðið.

„Afríkukeppnin er mikilvæg, ekki aðeins fyrir þjóð okkar heldur er hún er mikilvæg fyrir heimsálfuna Afríku. Leikmaður getur spilað fyrir tólf lið en við höfum aðeins eitt landslið,“ hóf Cisse á að segja.

Þjálfarinn tók einnig fram að aldrei myndu leikmenn taka félagslið fram yfir þjóð sína, sama hvað Aruelio de Laurentiis, forseti Napoli, hefur að segja um málið.

„Ef leikmenn Senegal, líka þeir sem spila í Evrópu, eru samkeppnishæfir þá kemur til greina að velja þá í landslið Senegal fyrir Afríkukeppnina.“

„Þegar Brasilía þarf á leikmanni að halda þá er engin umræða, hann spilar. Við erum fimm klukkustundum frá Evrópu á meðan sumar þjóðir í Suður-Ameríku eru 17 eða 18 tímum frá Evrópu. Það er samt engin umræða um það. Af hverju ætti umræðan aðeins að vera til staðar þegar kemur að leikmönnum frá Afríku?“

Cisse segir það einfaldlega ekki standast rökhugsun að Senegal mæti til leiks í Afríkukeppnina án sinna bestu leikmanna.

„Félög ættu hins vegar að ræða og deila hugmyndum til að finna sem besta lausn á þessu, fyrir bæði félagsliðin og landsliðin. Við erum ekki að berjast við félögin. Ég hef verið hér í sjö ár og hef alltaf reynt að eiga í góðum samskiptum við félagslið leikmanna,“ sagði Cisse að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×