Fótbolti

Barcelona reyndi að hræða De Jong til að losna við hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frenkie de Jong í síðasta undirbúningsleik Barcelona fyrir tímabilið sem var á móti Pumas UNAM í leiknum um Joan Gamper bikarinn.
Frenkie de Jong í síðasta undirbúningsleik Barcelona fyrir tímabilið sem var á móti Pumas UNAM í leiknum um Joan Gamper bikarinn. EPA-EFE/Alejandro Garcia

Frenkie de Jong vill vera áfram hjá Barcelona en Katalóníumennirnir vilja endilega losna við að borga risasamning hans. Nýjustu fréttir af þessari sápuóperu í Barcelona er að forráðamenn Barcelona hafi reynt að hræða De Jong í sumar um að samningur hans væri ólöglegur.

Samkvæmt nýjustu fréttum þá á De Jong að hafa fengið bréf í júlí þar sem hann var varaður við því að það væri mögulega eitthvað ólöglegt við nýja samninginn sem De Jong skrifaði undir árið 2020.

ESPN segir frá þessu en þar kemur líka fram að menn í kringum hollenska landsliðsmanninn segja að samningurinn hans sé í raun fullkomlega löglegur.

Með þessu á Barcelona að hafa verið að reyna setja pressu á De Jong að annað hvort yfirgefa félagið eða gera nýjan samning með lægri laun.

Barcelona er í miklum fjárhagsvandræðum og vill gera allt til að losna við að borga De Jong gríðarhá laun sem umræddur samningur segir til um.

Á þeim tíma sem bréfið var sent þá hafði Barcelona náð samkomulagi við Manchester United um kaup á De Jong en leikmaðurinn vildi ekki fara.

De Jong tók á sig óbeina launalækkun í október 2020, þegar Josep Maria Bartomeu var forseti félagsins, en það gerði hann með því að færa hluta af launum sínum fram í tímann um leið og hann framlengdi samninginn sinn til júní 2026.

Núverandi stjórn Barelona telur að þarna sé einhver maðkur í mysunni en á sama tíma þá gerðu þeir Marc-Andre ter Stegen, Gerard Pique og Clement Lenglet sama við sína samninga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.