Fótbolti

Sakaður um að hafa sparkað í kviðinn á ófrískri kærustu sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nico Schulz á æfingu með Borussia Dortmund á undirbúningstímabilinu.
Nico Schulz á æfingu með Borussia Dortmund á undirbúningstímabilinu. Getty/Harry Langer

Nico Schulz, leikmaður Borussia Dortmund og þýska landsliðsins, hafnar ásökunum um heimilisofbeldi sem fyrrum kærasta hans hefur sett fram.

Þýska félagið ætlar að standa við bakið á leikmanninum eftir að hafa talað við hann um ásakanirnar sem eru af ljótari gerðinni.

Fyrrum kærasta Schulz, sem var ófrísk á þeim tíma, segir hann hafa ráðist á hana árið 2020 og á hann meðal annars að hafa sparkað í kvið hinnar ófrísku kærustu sinnar. Þetta hafi gerst aðeins tveimur vikum fyrir fæðingu barnsins.

Áður á leikmaðurinn að hafa haldið henni aftan frá og síðan hrint henni niður í gólfið. Verði hann sakfelldur fyrir árás sem þessa gæti hann átt í hættu að vera dæmdur í tíu ára fangelsi.

Konan hefur kært Schulz fyrir heimilisofbeldi og rannsókn stendur yfir. Meðal sönnunargagna eru samskipti þeirra á samfélagsmiðlum þar sem hann meðal annars biður hana um að eyða gögnum sem sanni sekt hans.

Dortmund segir að enginn hjá félaginu hafi vitað af málin fyrr en það kom fram í fjölmiðlum.

Dortmund hitti leikmanninn og ráðgjafa hans og fór yfir málið. „Nico Schulz hefur tilkynnt okkur það að hann muni verja sig gegn þessum ásökunum með hjálp lögfræðinga sinna og segist vera saklaus af þessum ásökunum,“ segir í yfirlýsingu frá Borussia Dortmund.

Hinn 29 ára gamli Schulz var ekki í leikmannahópi Dortmund um helgina en hann hefur einnig spilað fyrir Hertha Berlin, Hoffenheim og Borussia Moenchengladbach auk þess að spila tólf landsleiki fyrir Þýskaland.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.