Mbappé glímir við nárameiðsli en hann missti einnig af sigri PSG í franska ofurbikarnum á dögunum. Neymar og Lionel Messi voru hins vegar báðir í framlínu Frakklandsmeistaranna í fyrstu umferð frönsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.
Það voru þeir sem náðu saman í fyrsta marki liðsins en Messi lagði það upp fyrir Neymar á 9. mínútu leiksins.
Um miðjan fyrri hálfleik lagði Neymar svo annað mark liðsins upp fyrir Marokkóbúann Achraf Hakimi og sá brasilíski lagði þriðja markið upp fyrir landa sinn Marquinhos fimm mínútum fyrir leikhlé.
Komið var fram á 80. mínútu þegar Neymar lagði upp í þriðja sinn, í þetta skipti fyrir Lionel Messi en sá argentínski skoraði öðru sinni á 86. mínútu eftir stoðsendingu landa síns Leandro Paredes.
PSG vann því sannfærandi 5-0 útisigur og hefur titilvörn sína á sigri.