Mikill fjöldi friðaðra æðarfugla fóru illa út úr stórum olíuleka sem varð þegar tíu þúsund lítrar olíu láku frá olíutanki Orkubús Vestfjarða í mars síðastliðnum, niður í tjörnina á Suðureyri þar sem hún átti svo greiða leið niður í sjóinn og hafnarsvæðið.
Súgfirðingar komu þá upp „Fuglabjörgunarmiðstöð Suðureyrar,“ til þess að freista þess að bjarga sem flestum fuglum. Vísir fjallaði um málið á sínum tíma:
Nú hafa Súgfirðingar skipulagt minningargöngu til heiðurs fuglanna sem ýmist drápust eða þurfti að aflífa.
Í tilkynningu frá skipuleggjanda göngunnar, Einari Mikael töframanni, segir að til að heiðra minningu fuglanna verði einnig myndaður hringur í kringum eitt hundruð fermetra Æðarfugl á fótboltavellinum á Suðureyri og loftmyndir teknar með dróna.
Gangan verði gengin frá félagsheimilinu á Suðureyri að fótboltavellinum.
„Við vonum að með minningarathöfninni heiðrum við minningu fuglanna og að athygli verði vakin á mikilvægi þess að verkferlar og viðbragðsáætlanir þurfi að vera til staðar er svona lagað kemur upp og hversu mikilvægar fyrirbyggjandi aðgerðir eru, til að svona mengunarslys gerist aldrei aftur,“ segir í tilkynningunni.
Nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast hér.