Innlent

Aldrei fleiri fengið íbúð á Stúdenta­görðunum

Árni Sæberg skrifar
Guðrún Björnsdóttir er framkvæmdastjóri Félagsstofnunar Stúdenta.
Guðrún Björnsdóttir er framkvæmdastjóri Félagsstofnunar Stúdenta. Vísir/Vilhelm

Félagsstofnun stúdenta úthlutaði 512 leigueiningum á Stúdentagörðum til rúmlega 550 stúdenta í nýafstaðinni haustúthlutun. Aldrei hafa fleiri fengið leiguhúsnæði úthlutað hjá stofnuninni í haustúthlutun.

Í fréttatilkynningu frá Félagsstofnun stúdenta segir að stofnunin hafi með markvissri uppbyggingu leigueininga á Stúdentagörðum náð miklum árangri í að vinna á langvarandi og erfiðu ástandi sem ríkt hefur í húsnæðismálum stúdenta við Háskóla Íslands. Á síðustu tveimur árum hafi FS fjölgað leigueiningum sem um 312 með opnun Mýrargarðs og nýbyggingu Gamla garðs við Hringbraut.

Félagsstofnun hafi nú um fimmtán hundruð leigueiningar til ráðstöfunar og í þeim búi um tvö þúsund manns, stúdentar og fjölskyldur þeirra.

„Það er verulega ánægjulegt að geta boðið svo marga nýja háskólanema velkomna á Stúdentagarða. Við höfum markvisst getað unnið á biðlistum með auknum byggingarframkvæmdum. Ef við miðum okkur við nágrannaþjóðir okkar, þá er markmið okkar að geta veitt um 15 prósent stúdenta við háskólann húsnæði til að geta staðið undir áætlaðri eftirspurn. Í dag stendur sú tala í 11 prósent en hækkar í 12 prósent með opnun Hótel Sögu og nýrrar byggingar við Lindargötu,“ er haft eftir Guðrúnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Félagsstofnunar Stúdenta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×