Fótbolti

HM von Paul Pogba lifir eftir góðar fréttir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba með HM bikarinn eftir sigur Frakka í úrslitaleiknum í Moskvu 2018.
Paul Pogba með HM bikarinn eftir sigur Frakka í úrslitaleiknum í Moskvu 2018. Getty/Matthias Hangst

Franski miðjumaðurinn Paul Pogba slapp við aðgerð á hné og á því enn möguleika á að vera með titilvörn Frakka á HM í Katar í nóvember.

Pogba snéri aftur til Juventus á frjálsri sölu frá Manchester United en meiddist strax á hné í æfingaferð til Bandaríkjanna.

Menn óttuðust fyrst að Pogba myndi missa af HM sérstaklega ef hann þyrfti að leggjast á skurðarborðið. Sérfræðingur skoðaði Pogba í gær og komst að því að á aðgerð væri ekki þörf.

Pogba lék fyrsta leik Juventus á undirbúningstímabilinu á móti Chivas Guadalajara frá Mexíkó en kvartaði undan verk í hnénu eftir leikinn.

Rannsóknir sýndu fram á að skemmd á liðþófa. Ítalska blaðið La Gazzetta dello Sport segir að Pogba nægi að fara í meðhöndlun í lyftingasalnum og sundlauginni og ætti að vera kominn til baka eftir fimm vikna fjarveru.

Þetta þýðir að Pogba ætti að geta unnið sér sæti í franska landsliðinu fyrir HM í Katar í nóvember. Hann var í stóru hlutverki þegar Frakkar urðu heimsmeistarar í Rússlandi 2018 og spilaði oftast mun betur með landsliðinu en með liði Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×