Umfjöllun: Víkingur - Lech Poznan 1-0 | Dýrt kveðin vísa Ara kom Víkingum í bílstjórasætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Víkings fagna marki Ara Sigurpálssonar sem tryggði þeim sigur á Lech Poznan.
Leikmenn Víkings fagna marki Ara Sigurpálssonar sem tryggði þeim sigur á Lech Poznan. vísir/diego

Víkingur vann 1-0 sigur á Lech Poznan í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. Ari Sigurpálsson skoraði eina mark leiksins með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks. Liðin mætast öðru sinni í Póllandi eftir viku.

Það var viðeigandi að mark Ara skildi gera útslagið en hann var langhættulegasti leikmaður vallarins meðan hans naut við. Ari fór af velli í upphafi seinni hálfleiks en í þeim fyrri var hann gríðarlega ógnandi á hægri kantinum þar sem Víkingar sóttu aðallega.

Sigur þeirra rauðu og svörtu var sanngjarn en þeir voru sterkari aðilinn ef frá er talin blábyrjun seinni hálfleiks þar sem Pólverjarnir fengu sín hættulegustu færi. Annars voru Íslands- og bikarmeistararnir líklegri til að skora og geta kannski verið smá svekktir að skora allavega ekki eitt mark til viðbótar.

Lech Poznan varð pólskur meistari á síðasta tímabili en hefur byrjað þetta tímabil illa. Og miðað við frammistöðuna í Víkinni í kvöld er ekki erfitt að sjá af hverju. Sóknarleikur Lech Poznan var afar bitlaus og vörn Víkings átti ekki í teljandi vandræðum.

Karl Friðleifur Gunnarsson og félagar í vörn Víkings stóðu vaktina vel.vísir/diego

Þetta var sjöundi Evrópuleikur Víkings í sumar og þeir eru greinilega búnir að leggja vel inn í þann reynslubanka. Víkingar voru yfirvegaðir þegar þess þurfti, árásargjarnir á köflum og leikstjórn þeirra var til fyrirmyndar. Miðað við leikinn í kvöld eru möguleikar Víkings á að komast áfram í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar góðir.

Víkingar byrjuðu leikinn af nokkrum krafti. Á 4. mínútu átti Júlíus Magnússon skot sem Filip Bednarek varði aftur fyrir. Fimm mínútum síðar komst Ari í fínt færi en skaut yfir.

Annars var mikið jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Hvorugt liðið gaf færi á sér og leikurinn var frekar lokaður. Það var þó alltaf meiri sannfæringarkraftur í sóknarleik Víkinga sem herjuðu ítrekað á Pedro Rebocho, vinstri bakvörð gestanna. Ari og Erlingur Agnarsson komust nokkrum sinnum í góðar stöður á hægri kantinum en úrslitasendingin geigaði.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks áttu gestirnir tvö skot í varnarmenn Víkings eftir hornspyrnu. Boltinn barst í kjölfarið til Birnis Snæs Ingasonar sem sendi á Ara á miðjum vallarhelmingi Víkings. Og hann sá um afganginn. Ari rakti boltann fram að vítateig Lech Poznan, lék á tvo varnarmenn og smellti boltanum svo í fjærhornið. Glæsilegt mark og draumaendir á fyrri hálfleik fyrir Víkinga.

Mark Ara gerði útslagið.vísir/diego

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og gerðu meira á fyrstu fimm mínútum hans en allan fyrri hálfleikinn. Fyrst komst Joao Amaral í fínt færi en Oliver Ekroth komst fyrir skot hans. Skömmu síðar átti Kristoffer Velde skot í slána á marki Víkings.

Heimamenn voru þó fljótir að ná áttum eftir þessa ágjöf og á 54. mínútu skallaði Helgi Guðjónsson yfir úr dauðafæri eftir fyrirgjöf Loga Tómassonar sem átti afbragðs leik.

Það sem eftir lifði leiks vörðust Víkingar vel og Pólverjarnir þurftu að gera sér skot utan af velli að góðu.

Víkingar fagna sigrinum með stuðningsmönnum sínum.vísir/diego

Heimamenn voru nær því að bæta við marki en gestirnir að jafna og voru hársbreidd frá því á 80. mínútu þegar Pablo Punyed átti skot rétt framhjá.

Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og Víkingar fögnuðu góðum sigri. Þeir eru í bílstjórasætinu fyrir seinni leikinn í Poznan og vonast þar væntanlega eftir að endurtaka afrek Stjörnumanna frá 2014. Garðabæjarliðið vann þá heimaleikinn gegn Lech Poznan, 1-0, og komst svo áfram eftir markalaust jafntefli í útileiknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira