Innlent

Átta skjálftar yfir þremur frá þeim stærsta

Árni Sæberg skrifar
Nokkrir skjálftar hafa orðið nálægt Kleifarvatni.
Nokkrir skjálftar hafa orðið nálægt Kleifarvatni. Stöð 2/Egill

Átta skjálftar hafa mælst yfir þremur að stærð á Reykjanesskaga frá því að skjálfti af stærðinni fimm reið yfir laust fyrir hálf þrjú í nótt. 

Nokkuð stöðugur hristingur virðist vera á Reykjanesskaganum um þessar mundir. Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands hafa átta skjálftar yfir þremur að stærð mælst síðan öflugur skjálfti fannst vel á Reykjanesinu og höfuðborgarsvæðinu klukkan 02:37 í nótt.

Hulda Rós Helga­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að skjálftavirkni hafi tekist að róast eftir þann stóra í gær en enn sé þó nokkur virkni á svæðinu.

Hún segir skjálftana sem orðið hafa í nótt vera svokallaða gikkskjálfta sem kvikugangur við Fagradalsfjalla valdi. Því sé ekki líklegt að kvika sé að safnast saman við Kleifarvatn en þar hafa nokkrir af skjálftunum átt upptök sín.

Í athugasemdum jarðvísindamanns á vef Veðurstofunnar segir að fimmtán skjálftar hafi mælst yfir fjórum að stærð í skjálftahrinu sem hófst á laugardaginn á svæði milli Þorbjarnar við Grindavík og Kleifarvatns. Sá stærsti þeirra mældist 5,4 að stærð á sunnudaginn um þrjá kílómetra frá Grindavík.

Vakin er athygli á aukinni hættu á grjóthruni og fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum, nálægt bröttum sjávarbjörgum og forðast svæði þar sem grjót getur hrunið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×