Innlent

Stórt bjarg hrunið úr Gálga­klettum norð­ur af Grinda­vík

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Til vinstri má sjá bjargið sem hrundi úr Gálgaklettum og hægra megin má sjá hvar Gálgaklettar eru staðsettir á korti, merktir með bláu.
Til vinstri má sjá bjargið sem hrundi úr Gálgaklettum og hægra megin má sjá hvar Gálgaklettar eru staðsettir á korti, merktir með bláu. Skjáskot/Samsett

Stórt bjarg hefur hrunið úr Gálgaklettum í Sundhnúk, norðan við Grindavík og skammt austan við fjallið Þorbjörn. Bjargið hefur mögulega hrunið vegna stóra skjálftans sem reið yfir í gærkvöldi og Grindvíkingar segja að sé sá stærsti á undanförnum árum.

Gunnlaugur Viðar Viðarsson vekur athygli á grjóthruninu í færslu á Facebook-hópnum Jarðsöguvinir þar sem hann birtir myndir frá Gálgaklettum frá því í dag.

Bjargið sem hrundi úr Gálgaklettum stendur upp úr miðri moldarskriðunni í brekkunni við klettana.Skjáskot/Facebook

Í færslunni segist Gunnlaugur hafa hjólað upp að Gálgaklettum sem séu í Sundhnúk, rétt norðan við Grindavík og að þar hafi „stórt og mikið bjarg“ hrunið úr klettunum og lægi það „í miðri brekkunni.“ 

Grjóthnullungur hefur oltið niður fjallshlíðina við Þorbjörn.Facebook

Þá segist Gunnlaugur í færslunni hafa gætt þess sérstaklega að vera langt frá klettunum ef eitthvað meira skyldi hrynja.

Neðar í þræðinum birtir hann svo mynd af grjóthnullungi sem hefur oltið niður fjallshlíð vestan við Þorbjörn.

Veðurstofa Íslands hefur einmitt varað fólk við því að fara of nálægt fjöllum og fjallshlíðum vegna hættu á grjóthruni og skriðum.

Stærsti skjálftinn á undanförnum árum

Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga frá því um hádegisbilið á laugardag og í gærkvöldi átti sér stað stór skjálfti að stærð 5,5 sem olli miklu tjóni í Grindavík.

Þar hrundu matvörur úr hillum verslana, myndir og speglar af veggjum á heimilum fólks og leirtau brotnaði um alla Grindavík. Auk þess rofnaði kaldavatnslögn inn í bæinn.

Þá funduðu bæjaryfirvöld Grindavíkur með lögreglunni á Suðurnesjum og Almannavörnum til að fara yfir stöðu mála og taka ákvarðanir um viðbúnað og viðbrögð en talið er að ný innskotavirkni sé hafin við ganginn sem myndaðist við eldgosið í Geldingadölum.


Tengdar fréttir

Upplifun íbúa að skjálftinn í gær hafi verið sá kröftugasti á síðustu árum

Skjálftinn sem reið yfir rétt fyrir klukkan sex í gærkvöldi var einn sá kröftugasti á þeim rúmum tveimur árum sem skjálftavirkni hefur verið viðvarandi á Reykjanesi, að mati margra Grindvíkinga. Innanstokksmunir féllu úr hillum og eitthvað var um smávægilegar skemmdir. Almannavarnanefnd fundar í hádeginu um skjálftana og bæjarstjóri segir vel fylgst með stöðunni. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.