Innlent

Fjórir skrif­stofu­menn fyrir hvern klínískan starfs­mann

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Heilbrigðisráðherra skipaði nýja stjórn Landspítala fyrr í júlí.
Heilbrigðisráðherra skipaði nýja stjórn Landspítala fyrr í júlí. Vísir

Formaður nýrrar stjórnar Landspítalans, segir að fjórir til fimm skrifstofumenn hafi verið ráðnir á síðustu árum á móti einum klínískum starfsmanni. Hagræðingar á borð við fækkun starfsfólks á spítalanum komi mögulega til greina til að mæta erfiðri fjárhagsstöðu spítalans.

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi og formaður nýrrar stjórnar Landspítalans, olli usla í vikunni þegar hann sagði að til greina kæmi að fækka starfsmönnum Landspítalans í hagræðingaskyni. Þegar hann tók við rekstri Karólínska háskólasjúkrahússins greip hann til harkalegra niðurskurðaðgerða og sagði upp fjölmörgum starfsmönnum.

Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði hugmyndir Björns „fullkomlega óraunhæfar“ og formaður Félags lífeindafræðinga sagði spítalann ekki mega við því að starfsfólki fækki.

Björn ræddi málið á Sprengisandi í morgun en segir að ekki sé tímabært að grípa til aðgerða. Forstjóri Landspítalans eigi enda lokaorðið og gögn og tölfræði yfir rekstur spítalans vanti. Verkefni nýrrar stjórnar verði að kanna betur starfsemina.

Björn hefur verið ráðgjafi heilbrigðisráðherra síðustu mánuði og segir að yfir fjögurra ára tímabil hafi fjórir til fimm skrifstofumenn verið ráðnir á móti hverjum og einum klínískum starfsmanni.

„Allt þetta fólk er að vinna góða vinnu, það er að vinna eitthvað sem er þarft - ef það er til endalaust af peningum. En þegar þú þarft að hugsa til framtíðarinnar og þarft að leggja áherslu á eitthvað þá leggurðu áhersluna á það sem maður getur kallað kjarnastarfsmenn, en þetta er bara spurning um forgangsröðun eins og alltaf,“ segir Björn.

Með kjarnastarfsmönnum á Björn við starfsmenn sem sinna sjúklingum með beinum eða óbeinum hætti. 

Hann segir umræðu um rekstur heilbrigðisþjónustu viðkvæma og koma þurfi í ljós á næstu mánuðum hvort og þá á hvaða sviðum fækka þurfi starfsfólki.

„Það getur vel verið að við séum undirfjármögnuð miðað við það starfsfólk sem við erum með akkúrat núna en ef það eru ekki til meiri peningar þá þurfum við að forgangsraða í það sem við getum gert,“ ítrekar Björn.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild hér að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.