Fótbolti

Milos rekinn frá Malmö

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Milos Milojevic stoppaði stutt við hjá Malmö.
Milos Milojevic stoppaði stutt við hjá Malmö. vísir/Hulda Margrét

Milos Milojevic hefur verið sagt upp störfum sem þjálfara sænska meistaraliðsins Malmö.

Milos tók við Malmö af Jon Dahl Tomasson í vetur. Undir stjórn Milosar varð Malmö bikarmeistari en gengið í sænsku úrvalsdeildinni var ekki nógu gott og þá tapaði liðið fyrir Zalgaris Vilnius í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Í 1. umferðinni vann Malmö Víking naumlega, 6-5.

Hinn 39 ára Milos er fæddur í Serbíu en er einnig með íslenskt ríkisfang. Hann spilaði með Hamri, Ægi og Víkingi hér á landi og þjálfaði svo Víking og Breiðablik.

Milos gerði góða hluti með Mjällby í Svíþjóð og var svo aðstoðarþjálfari Rauðu stjörnunnar í heimalandinu. Hann tók við Hammarby í Svíþjóð í fyrra en var sagt upp eftir að hann ræddi við norska stórliðið Rosenborg í óþökk Svíanna.

Malmö leitar nú að nýjum þjálfara en þangað til hann finnst stýrir Andreas Georgson liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×