Erlent

Varaði Biden við því að styðja Taívan

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Biden og Jinping á fundi sem fram fór í nóvember á síðasta ári.
Biden og Jinping á fundi sem fram fór í nóvember á síðasta ári. EPA/Sarah Silbiger

Forsetar Bandaríkjanna og Kína ræddust við í gegnum fjarfundarbúnað í gærkvöldi þar sem aðalumræðuefnið var Taívan og sú viðkvæma staða sem nú er uppi.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði kínverska kollega sínum að Bandaríkin séu algjörlega andsnúin því að Kína taki einhliða ákvarðanir í málefnum Taívans. Taívanar kalla sig sjálfstætt ríki en Kínverjar líta hinsvegar á eyjuna sem órjúfanlegan hluta af kínverska alþýðulýðveldinu og hafa margsinnis hótað því að sölsa hana undir sig. 

Fá ríki viðurkenna sjálfstæði Taívans en Bandaríkjamenn hafa þó leynt og ljóst stutt við bakið á landinu án þess þó að viðurkenna það formlega. Leiðtogi Kína Xi Jinping varaði Biden hinsvegar í gær við því að leika sér að eldinum, því þeir sem geri það muni á endanum brenna sig. 

Spennan á milli stórveldanna tveggja hefur aukist enn síðustu vikur eftir að fregnir bárust af því að Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hyggi á heimsókn til Taívans. Það er þyrnir í augum Kínverja og hafa þeir varað við alvarlegum afleiðingum slíkrar heimsóknar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×