Fótbolti

Kounde færist ansi nálægt Katalóníufélaginu

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jules Kounde mun ganga til liðs við Barcelona standist hann læknisskoðun hjá félaginu. 
Jules Kounde mun ganga til liðs við Barcelona standist hann læknisskoðun hjá félaginu.  Vísir/Getty

Barcelona greinir frá því síðdegis í dag að félagið náð samkomulagi við Sevilla um kaupverð á franska landsliðsmanninum Jules Olivier Kounde.

Fram kemur í frétt á heimasíðu Barcelona að Kounde muni innan tíðar gangast undir læknisskoðun hjá félaginu og svo virðist á samfélagsmiðlum að samið hafi verið um kaup og kjör. 

Þar má sjá þennan 23 ára gamla varnarmann í fatnaði merktum Barcelona að lýsa yfir hrifningu sinni á Katalóníufélaginu. 

Fátt virðist því benda til annars en að Kounde muni leika með Barcelona á komandi keppnistímabili en félagið hafði betur í baráttu við Chelsea um að klófesta kappann. 

Kounde verður fimmti leikmaðurinn sem Barcelona fær til liðs við sig í félagaskiptaglugganum í sumar en áður höfðu Robert Lewandowski, Raphinha, Andreas Christensen og Franck Kessie bæst við leikmannahóp Xavi. 

Mörgum í knattspyrnuheiminum finnst skjóta skökku við að Barcelona geti bætt þessum leikmönnum við sig á meðan félagið skuldar öðrum leikmönnum liðsins launagreiðslur.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×