Fótbolti

Tilkynnt um 290 níðfærslur á mótinu sem stelpurnar okkar spiluðu á

Sindri Sverrisson skrifar
Lið Englands, Spánar, Frakklands og Ítalía hafa orðið verst fyrir barðinu á netníðinu á EM en ekki er vitað til þess að slíkt hafi beinst sérstaklega að íslenska liðinu.
Lið Englands, Spánar, Frakklands og Ítalía hafa orðið verst fyrir barðinu á netníðinu á EM en ekki er vitað til þess að slíkt hafi beinst sérstaklega að íslenska liðinu. Vísir/Vilhelm

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, vinnur gegn því að leikmenn og þjálfarar á Evrópumóti kvenna í fótbolta verði fyrir netníði. Sambandið hefur þegar tilkynnt um að minnsta kosti 290 níðfærslur.

UEFA hrinti af stað nýju verkefni þegar EM hófst en í því felst að fylgjast með og tilkynna um hvers kyns efni á netinu sem flokkast sem níð.

Af þeim 290 færslum sem tilkynntar höfðu verið á þriðjudag höfðu fyrirtækin sem eiga viðkomandi samfélagsmiðla fjarlægt yfir helming þeirra, eða 55%.

Alls var 39% færslnanna beint að sjálfu mótinu en 19% að einstaka leikmönnum, 20% að ákveðnum liðum og 17% að ákveðnum þjálfurum. Af færslunum voru 70% talin fela í sér almennt níð og 20% kynjamismunun, 6% voru talin rasísk og 4% hómófóbísk.

Michele Uva, sem stýrir málum sem tengjast samfélagslegri ábyrgð hjá UEFA, segir gott að sjá strax þau áhrif sem átak sambandsins hafi haft.

„Færslur eru fundnar og fjarlægðar, og við vonum að þetta gefi leikmönnum, þjálfurum og dómurum möguleika á vernd af hálfu UEFA,“ sagði Uva.

Fyrr í sumar birtist skýrsla FIFA og Fifpro leikmannasamtakanna þar sem fram kom að helmingur allra leikmanna á EM karla í fyrra og á Afríkumóti karla í byrjun þessa árs hefði orðið fyrir netníði af einhverju tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×