Innlent

Öku­maðurinn talinn hafa verið undir á­hrifum á­fengis og fíkni­efna

Árni Sæberg skrifar
Bílarnir tveir eru mikið tjónaðir.
Bílarnir tveir eru mikið tjónaðir. Vísir/Vésteinn

Einn var handtekinn í gærkvöldi grunaður um að hafa valdið hörðum árekstri tveggja bifreiða á Arnarnesbrú. Hann er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og að hafa ekki hagað akstri eftir aðstæðum.

Ökumaður hinnar bifreiðarinnar slasaðist í árekstrinum ásamt tveimur sonum sínum, sem voru farþegar. Ekki er vitað nánar um líðan þeirra. 

Þetta kemur fram í dagbókarfærslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem er óvenjulöng miðað við miðvikudagskvöld.

Bátur strandaði við Álftanes

Lítil trilla undir sex metrum á lengd strandaði við Álftanes á áttunda tímanum í gærkvöldi. Ekki var talið að hætta væri á ferð en björgunarsveitir voru samt sem áður kallaðar út og mættu með bátaflokk.

Þeim tókst að losa bátinn og koma að bryggju um einni og hálfri klukkustund síðar.

Þá var tilkynnt um slys í undirgöngum í Garðabæ rétt upp úr klukkan 17 en þar höfðu vespa og reiðhjól skollið saman. Hjólreiðamaðurinn var sextugur karlmaður og slasaðist hann lítillega á fæti. Tveir fimmtán ára drengir voru á vespunni og sluppu þeir ómeiddir. Lögregla ræddi við foreldra þeirra.

Sautján ára á 156 kílómetra hraða

Rétt upp úr klukkan 2 í nótt var sautján ára ökumaður stöðvaður á Kringlumýrarbraut eftir að hafa mælst á 156 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er áttatíu kílómetrar á klukkustund.

Pilturinn vildi ekki tjá sig um sakarefnið og var þ´vi færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Forráðamaður hans sótti hann á lögreglustöðina.

Töluvert var um umferðalagabrot í gærkvöldi og í nótt. Þannig var annar ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur en sá ók Kringlumýrarbraut á 114 kílómetra hraða á klukkustund.

Alls voru sex ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

Þá var tilkynnt um fólk að að nota fíkniefni í kyrrstæðri bifreið í Hafnarfirði upp úr klukkan 9 í gærkvöldi. Á vettvangi voru fimm ungir menn sem viðurkenndu neyslu fíkniefna en þeir höfðu klárað öll efni áður en lögreglu bar að garði. Ungu mennirnir voru allir eldri en átján ára.


Tengdar fréttir

Harður árekstur á Arnarneshæð

Fjórir voru fluttir á bráðamóttöku vegna áreksturs á Arnarneshæð klukkan rétt rúmlega níu í kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×