Innlent

Erfitt starfs­um­hverfi hamlar fjölgun heimilis­lækna

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins. Vísir/Einar

Hlutfall heimilislækna hér á landi er eitt það lægsta í Evrópu en um 60 slíkir eru á hverja 100 þúsund íbúa. Þá eru barnalæknar einnig hlutfallslega fáir. 847 íslenskir læknar starfa erlendis.

Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins í dag, þar sem rætt er við Steinunni Þórðardóttur formann Læknafélagsins. Steinunn segir erfiðu starfsumhverfi hér á landi um að kenna; álag sé mikið og verkefnin óljós. Þeir séu að sinna verkefnum sem aðrir læknar eða fagstéttir ættu að sinna.

„Þau lenda oft í að vera sálfræðingur, félagsráðgjafi og allt mögulegt fyrir fólk því það vantar fólk úr þeim stéttum á heilsugæsluna,“ segir Steinunn.

Sumir heimilislæknar hér á landi séu þannig með tvöfaldan eðlilegan fjölda skjólstæðinga en Svíar settu nýlega þak á leyfilegan fjölda skjólstæðinga. Þeir mega ekki lengur vera fleiri en 1.100 á hvern lækni. 

Hér á landi er ekkert slíkt þak. 

Í blaðinu kemur einnig fram að aðeins Grikkir og Pólverjar séu með færri heimilislækna en Íslendingar og almennt séð séu Vestur-Evrópuríki með um og yfir 100 heimilislækna á hverja 100 þúsund íbúa.

Staðan er þó enn verri hvað varðar barnalækna en þar er Ísland neðst á lista.

Steinunn segir að fjölga þurfi læknanemum hérlendis og laða læknanema heim eftir nám.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×