Fótbolti

Sigurður Heiðar: Sex leikir í röð sem við erum ánægðir með

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigurður Heiðar var ánægður með sína menn í kvöld.
Sigurður Heiðar var ánægður með sína menn í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

„Fyrri hálfleikur var mjög góður og í seinni hálfleik taka þeir leikinn yfir eðlilega. Við erum ekki vanir því í sumar að vera í forystu þannig að það var skjálfti í mönnum og menn vildu passa upp á sitt,“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis eftir 3-0 sigur á Stjörnunni í Garðabæ í kvöld.

„Ég hefði viljað halda betur í boltann í síðari hálfleiknum en þess þá heldur var varnarleikurinn góður,“ bætti Sigurður við.

Staðan í hálfleik var 3-0 fyrir Leikni og í upphafi síðari hálfleiks settu Stjörnumenn töluverða pressu á Breiðhyltinga sem stóðu sókn þeirra af sér.

„Það var notalegt að komast í gegnum það án þess að fá á sig mark. Virkilega mikilvægt.“

Róbert Hauksson kom inn í lið Leiknismanna í stað Maciej Makuszewski sem var í leikbanni. Róbert var frábær, skoraði marki og var síógnandi á hægri kantinum.

„Hann var frábær og er búinn að vera frábær í sumar. Hann er búinn að vera óheppinn fyrir framan markið og ég er virkilega ánægður með hans framlag og þá sérstaklega í dag.“

Sigur Leiknis var annar sigur þeirra í sumar en fyrsti sigurinn kom gegn ÍA í síðustu umferð.

„Við erum búnir að vera ánægðir með spilamennskuna og þá sérstaklega í síðustu fjórum leikjunum fyrir leikinn gegn ÍA. Við vorum virkilega ánægðir með þann leik þannig að nú eru komnir sex leikir í röð sem við erum nokkuð ánægðir með.“

„Þegar stigin fylgja svona er skemmtilegra að mæta á æfingar og spila leiki,“ sagði Sigurður að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×