Fótbolti

Sjáðu Frakkland salta Ítalíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Grace Geyoro fagnar fyrsta marki sínu af þremur í 5-1 sigri Frakklands á Ítalíu.
Grace Geyoro fagnar fyrsta marki sínu af þremur í 5-1 sigri Frakklands á Ítalíu. EPA-EFE/ANDREW YATES

Frakkland átti ekki í neinum vandræðum gegn Ítalíu er liðin mættust í D-riðli Evrópumóts kvenna í fótbolta á sunnudag. Lokatölur 5-1 eftir að staðan var 5-0 í hálfleik.

Það var snemma hvað stefndi í en Grace Geyoro kom Frakklandi yfir strax á 9. mínútu leiksins. Þremur mínútum síðar var staðan orðin 2-0 eftir mark frá markamaskínunni Marie-Antoinette Katoto.

Eftir það róaðist leikurinn aðeins en Delphine Cascarino skoraði með þrumuskoti á 38. mínútu og Geyoro bætti svo við öðru og þriðja marki sínu áður en fyrri hálfleik lauk. Staðan 5-0 er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Franska liðið róaðist heldur í síðari hálfleik og ljóst var að liðið var þegar farið að huga að leiknum gegn Belgíu á fimmtudaginn kemur. Það nýtti Ítalía sér en Martina Piemonte minnkaði muninn þegar stundarfjórðungur lifði leiks og þar við sat, lokatölur 5-1. 

Eftir fyrstu umferð D-riðils er Frakkland á toppnum með þrjú stig, þar á eftir koma Belgía og Ísland með eitt stig á meðan Ítalía er án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×