Fótbolti

Löng bið á enda í dag: 586 dagar frá því að stelpurnar tryggðu sig inn á þetta EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði markið sem tryggði stelpunum sæti á EM en það var fyrir meira en nítján mánuðum síðan.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði markið sem tryggði stelpunum sæti á EM en það var fyrir meira en nítján mánuðum síðan. Getty/Alex Livesey

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur leik á EM í dag með leik á móti Belgum. Það er búið að bíða svolítið lengi eftir þessum leik innan kvennalandsliðsins.

Íslenska liðið tryggði sér nefnilega sæti sitt á EM með 1-0 sigri á Ungverjalandi í Búdapest 1. desember 2020. Eftir þann sigur varð ljóst að íslenska liðið var öruggt með það að vera eitt af þremur liðunum með bestan árangur í öðru sætinu.

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir, sem spilaði þennan leik í Búdapest, er búin að eignast barn á þessum tíma sem nú orðinn átta mánaða gamall strákur.

Síðan þá eru liðnir nítján mánuðir og níu daga eða samanlagt 586 dagar. Evrópumótið átti að fara fram sumarið 2021 en var frestað óbeint vegna kórónuveirunnar. Karlamótið var fært frá 2020 til 2021 og í framhaldinu var kvennamótinu seinkað um eitt ár.

Belgarnir komust á EM sama kvöld og íslenska liðið þegar liðið vann 4-0 sigur á Sviss og tryggði sér sigur í sínum riðli.

Fyrir utan gestgjafa Englendinga þá þurftu Hollendingar og Þjóðverjar að bíða lengst eftir EM. Bæði lið tryggðu sér sæti á EM 23. október 2020, Þjóðverjar léku sinn fyrsta leik á föstudagskvöldið en Hollendingar byrjuðu Evrópumótið sitt í gær.

Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 16.00 að íslenskum tíma og það verður fylgst vel með honum á Vísi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×