Innlent

Kalla inn starfs­menn úr sumar­leyfum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fjórir einstaklingar liggja inni á sjúkrahúsinu með Covid-19 en einn þeirra er á gjörgæslu í öndunarvél.
Fjórir einstaklingar liggja inni á sjúkrahúsinu með Covid-19 en einn þeirra er á gjörgæslu í öndunarvél. Vísir/Vilhelm

Mikið álag hefur verið á Sjúkrahúsinu á Akureyri seinustu vikur og er mannekla þar á bæ mikil þar sem ekki náðist að manna allar stöður sumarafleysinga. Búið er að kalla einhverja starfsmenn inn úr sumarleyfum vegna ástandsins.

Samkvæmt tilkynningu á vef sjúkrahússins á Akureyri eru allar legudeildir yfirfullar þrátt fyrir að dregið hafi verið úr valkvæðri þjónustu. Sjúkrahúsið hefur einnig þurft að lengja sumarlokanir á einhverjum deildum svo hægt sé að sinna annarri þjónustu.

Í samtali við fréttastofu segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, að ofan á mikið álag sé töluvert um veikindi starfsmanna. Hún er ekki með tölu á því hversu margir starfsmenn eru smitaðir af Covid-19 en alls liggja fjórir einstaklingar inni á sjúkrahúsinu með sjúkdóminn. Einn þeirra er á gjörgæslu í öndunarvél.

Manneklan hefur valdið því að búið er að kalla einhverja starfsmenn úr sumarleyfum sínum. Hildigunni finnst það mjög leiðinlegt en það sé algjört örþrifaráð.

Búið er að gera heilbrigðisráðherra vart um stöðuna, sem og heilbrigðisstofnunum á upptökusvæði sjúkrahússins. Aukið verður samráð um innlagnir á sjúkrahúsið.

Heilbrigðisráðuneytið hefur óskað eftirtillögum frá stjórnendum heilbrigðisstofnanna um hvernig hægt sé að hjálpa starfsfólki að ná aftur þreki sínu og krafti, og hvernig best er að vinna að endurheimt þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×