Erlent

Skotmaðurinn hefur játað og á yfir höfði sér lífs­tíðardóm

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Robert E. Crimo hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt sjö manns og segir saksóknari að fleiri ákæruliðir muni bætast við.
Robert E. Crimo hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt sjö manns og segir saksóknari að fleiri ákæruliðir muni bætast við. AP/Lake County Major Crime Task Force

Robert E. Crimo, sem skaut á skrúðgöngu í Chicaco í fyrradag, hefur verið ákærður fyrir sjö morð. Að sögn saksóknara hefur Crimo játað glæp sinn. Verði hann dæmdur gæti hann hlotið lífstíðardóm án möguleika á reynslulausn.

Hinn 22 ára Crimo notaði riffil sem hann keypti löglega í árásinni á skrúðgöngu á þjóðhátíðardag Bandaríkjanna 4. júlí síðastliðinn. Eftir árásina flúði hann af vettvangi með því að dulbúa sig sem konu og fela sig meðal almennings. Lögreglan handtók hann nokkrum klukkustundum eftir árásina.

Crimo hefur nú verið ákærður fyrir sjö morð og getur ekki losnað úr varðhaldi gegn tryggingu.  Alls eru sjö látnir eftir skotárásina og meira en 30 særðir eða slasaðir.

Verði hann sakfelldur fyrir glæpi sína gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðardóm í fangelsi án möguleika á reynslulausn.

Ben Dillon, aðstoðarríkissaksóknari, greindi frá því í réttarhöldunum að upptökur úr öryggismyndavélum sýndu hinn grunaða yfirgefa svæðið og losa sig við riffil. Þá sagði Dillon að Crimo hafi játað að hafa skotið á skrúðgönguna. Hann sagði einnig að fjöldi annarra ákæruliða myndu bætast við ákæruna.


Tengdar fréttir

Dulbjó sig sem konu eftir árásina

Hinn 22 ára gamli Robert E. Crimo, sem sakaður er um mannskæða skotárás í úthverfi Chicago í gær, keypti hálfsjálfvirkan riffil sem hann notaði við árásina með löglegum hætti. Eftir skothríðina er Crimo sagður hafa flúið af vettvangi með því að dulbúa sig sem konu og fela sig meðal flýjandi almennings.

Búið að handtaka árásarmanninn

Lögregluþjónar í Highland Park, úthverfi Chicago í Bandaríkjunum, hafa handtekið manninn sem hóf skothríð á skrúðgöngu í bænum í dag. Maðurinn skaut minnst sex til bana og særði 24. 

Mannskæð skotárás á skrúðgöngu í Bandaríkjunum

Minnst sex liggja í valnum og minnst 24 eru særðir eftir að maður hóf skothríð á skrúðgöngu í úthverfi Chicago í Bandaríkjunum. Árásarmaðurinn gengur enn laus og er lögreglan með mikinn viðbúnað á svæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×