Fótbolti

Óli Valur mögu­lega á leið til Sví­þjóðar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óli Valur í leik með íslenska U-21 árs landsliðinu gegn Kýpur.
Óli Valur í leik með íslenska U-21 árs landsliðinu gegn Kýpur. Vísir/Hulda Margrét

Sænska úrvalsdeildarfélagið Sirius hefur mikinn áhuga á Óla Val Ómarssyni, hægri bakverði Stjörnunnar og einni skærustu stjörnu Bestu deildar karla í fótbolta.

Óli Valur hefur komið eins og stormsveipur inn í Bestu deildina. Hann hefur heillað land og þjóð með spilamennsku sinni sem skilaði honum sæti í U-21 árs landsliði Íslands á dögunum þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall.

Frammistaða hans með U-21 árs landsliðinu minnti um margt á frammistöður hans með Stjörnunni en Óli Valur er eins og áður segir einkar sókndjarfur. Alls spilaði Óli Valur tvo leiki fyrir U-21 árs landsliðið en hann á nú samtals að baki 17 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Sænski fjölmiðillinn Aftonbladet hefur greint frá því að Sirius sé komið í viðræður við Stjörnuna um að kaupa þennan unga bakvörð. Félagið hefur lagt fram tilboð í leikmanninn og nú er beðið eftir hvort Stjarnan samþykki eða biðji um hærra verð.

Aron Bjarnason leikur með Sirius og hefur vængmaðurinn til að mynda leyst stöðu hægri bakvarðar að undanförnu. Liðið situr sem stendur í 10. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 17 stig eftir 12 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×