Innlent

Starfs­maður stal 1,7 milljón króna af Bónus

Árni Sæberg skrifar
Konan var starfsmaður Bónus í Holtagörðum.
Konan var starfsmaður Bónus í Holtagörðum. Vísir/Vilhelm

Kona var nýverið dæmd til sextíu daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að hafa, yfir tæplega fjögurra ára tímabil, stolið um 1,7 milljón króna af vinnuveitanda sínum Högum hf. en hún starfaði í Bónus.

Konan var ákærð fyrir að hafa misnotað í nokkur skipti aðstöðu sína sem starfsmaður verslunarinnar Bónus að Holtagörðum í Reykjavík, og dregið sér fjármuni með því að framkvæma tilhæfulausar mínusfærslur í kassakerfi verslunarinnar og í kjölfarið tekið samsvarandi fjárhæð úr peningaskáp verslunarinnar og nýtt í eigin þágu. 

Um var að ræða 71 skipti yfir tímabilið mars 2015 til nóvember 2018. 

Þá var hún einnig ákærð fyrir að setja tuttugu þúsund krónur inn á fyrirframgreitt Bónuskort og nýta í eigin þágu og að taka reiðufé að fjárhæð 22 þúsund krónur úr peningaskáp verslunarinnar og nýta í eigin þágu.

Við rekstur málsins óskaði saksóknari eftir því að fallið yrði frá sjö liðum í fyrsta ákærulið og játaði konan brot samkvæmt eftirstandandi ákæruliðum. Með vísan til játunar og þess að konan hefði aldrei hlotið refsingu áður var refsing hennar ákveðin sextíu daga fangelsisvist skilorðsbundin til tveggja ára.

Hagar mættu ekki og fá ekki krónu

Hagar hf. kröfðust þess að konan greiddi um 1,6 milljón króna í skaðabætur auk vaxta og dráttarvaxta. 

Þar sem Hagar sóttu ekki dómþing við fyrirtöku málsins og höfðu hvorki boðað lögmæt forföll né fengið ákæruvaldið til að mæta fyrir sína hönd fellur krafan sjálfkrafa niður í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×