Fótbolti

Þróttur sendir frá sér yfirlýsingu eftir N1 mótið: „Framkoma sem á ekki að sjást“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
N1-mótið á Akureyri er eitt stærsta barnamót landsins.
N1-mótið á Akureyri er eitt stærsta barnamót landsins. Tröll.is

Knattspyrnudeild Þróttar hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir að félagið ákvað að senda eitt af liðum sínum ekki í kappleik um sæti á mótinu.

Þróttur og FH áttu að mætast í leik um 5. sæti N1 mótsins, en lið Þróttar mætti ekki til leiks. Því var gripið til þess ráðs að foreldrar skyldu leika gegn FH-ingum þennan lokaleik mótsins.

Í kjölfarið var félagið sakað um það að hafa ekki mætt til leiks þar sem foreldrum leikmanna hafi þótt liðsmenn FH svo miklir tuddar þegar liðin mættust í riðlakeppni mótsins.

Knattspyrnudeild Þróttar hefur hins vegar sen frá sér yfirlýsingu þar sem þessum ásökunum er svarað, en þar kemur meðal annars fram að félaginu hafi þótt ábyrgðaraðilar mótsins hafa brugðist skyldum sínum þegar leikir fóru úr böndunum.

„N1 mótið er einstakur viðburður þar sem ungir keppendur fá að njóta sín í að etja kappi í heiðarlegri og fallegri keppni við jafnaldra,“ segir í yfirlýsingu Þróttar.

„Knattspyrnufélagið Þróttur er þakklátt fyrir frábært skipulag á mótinu en vill þó koma skilaboðum á framfæri til mótstjórnar N1 mótsins jafnt sem annarra mótshaldara.

Á mótinu sýndi lið framkomu sem ekki á að sjást á knattspyrnuvellinum, framkomu sem einkenndist af agaleysi og vanvirðingu gagnvart mótherjum og starfsmönnum mótsins. Þegar slíkt gerist er það ábyrgðaraðila, s.s. þjálfara, dómara og mótstjórnar, að grípa inn í. Þeirra er að skakka leikinn, róa, styðja og leiðbeina þeim sem eru úr jafnvægi. Ef það er ekki gert, þá er hætta á að hinn fagri leikur snúist upp í andhverfu sína.

Því miður fór svo á þessu frábæra móti að ábyrgðaraðilar brugðust þegar leikir fóru úr böndunum. Knattspyrnufélagið Þróttur harmar að ekki hafi verið tekið strax á málum, öllum til heilla. 

Félagið tók í kjölfarið ákvörðun um að senda ekki eitt af liðum sínum í kappleik um sæti á mótinu. Var það mat yfirþjálfara og þjálfara félagsins að enginn ávinningur væri fyrir lið Þróttar að taka þátt í leik sem snérist um eitthvað allt annað en fótbolta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×