Fótbolti

Eng­land Evrópu­meistari U-19 ára lands­liða

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Carney Chukwuemeka fagnar marki sínu á 108. mínútu.
Carney Chukwuemeka fagnar marki sínu á 108. mínútu. Christian Hofer/Getty Images

Enska U-19 ára landslið karla í knattspyrnu varð í kvöld Evrópumeistari eftir 3-1 sigur á Ísrael í framlengdum leik. Stigu tveir leikmenn Aston Villa upp þegar mest á reyndi.

England varð Evrópumeistari í þessum aldursflokki árið 2017 og gerði það sama í kvöld er liðið mætti Ísrael á Štadión Antona Malatinského-vellinum í Slóvakíu. Sigurinn var þó frekar torsóttur en staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma. 

Ísrael komst yfir undir lok fyrri hálfleiks þegar Oscar Gloukh skoraði eftir vel útfærða skyndisókn. England jafnaði metin snemma í síðari hálfleik, Callum Doyle, leikmaður Manchester City, með markið eftir hornspyrnu.

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja. Þar steig Carney Chukwuemeka, leikmaður Aston Villa, upp og kom Englandi yfir á 108. mínútu þegar hann böðlaði boltanum yfir línuna.

Aaron Ramsey, einnig leikmaður Aston Villa, gulltryggði svo sigur Englands með marki á 116. mínútu og England er Evrópumeistari U-19 ára landsliða á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×