Fótbolti

Átta dagar í EM: Frá Höfn til Mílanó og á EM eftir samning um Playmo-hús

Sindri Sverrisson skrifar
Guðný var sem rennilás á hægri vængnum.
Guðný var sem rennilás á hægri vængnum. Vísir/Hulda Margrét

Vísir telur niður í Evrópumót kvenna í fótbolta sem fram fer í Englandi í júlí og kynnir leikmenn íslenska landsliðsins. Varnarmaðurinn Guðný Árnadóttir er næst í röðinni.

Guðný er 21 árs gömul en hefur þegar spilað 15 A-landsleiki eftir að hafa leikið þann fyrsta í janúar 2018. Lengi ríkti óvissa um hvort hún kæmist í EM-hópinn, vegna hnémeiðsla sem hún glímdi við, en hún ferðaðist út með liðinu síðastliðinn mánudag og er klár í slaginn fyrir EM.

Guðný er varnarmaður og vönust því að spila sem miðvörður en í landsliðinu hefur hennar hlutverk helst verið að nýta hraða sinn og styrk sem hægri bakvörður.

Hún hefur verið leikmaður ítalska stórveldisins AC Milan frá árinu 2020 en lék sem lánsmaður með Napoli fyrsta tímabilið sitt á Ítalíu. Guðný lék svo sautján deildarleiki með AC Milan í vetur þegar liðið endaði í 3. sæti ítölsku deildarinnar. 

Guðný Árnadóttir lék með stórliði AC Milan í vetur en liðið endaði í 3. sæti ítölsku A-deildarinnar.Getty/Pier Marco Tacca

Guðný er hins vegar uppalinn Hornfirðingur og æfði þar með yngri flokkum Sindra. Í viðtali við staðarmiðilinn Eystrahorn árið 2020 lýsti hún því hvernig æskan hefði verið á Höfn og hvernig fyrstu kynnin af fótbolta hefðu verið:

„Í byrjun vildi ég nú alls ekki fara á fótboltaæfingu en mamma gerði samning við mig um að ég þyrfti að mæta á 20 æfingar og þá fengi ég playmo hús, við bjuggum til skriflegan samning og allt sem var hengdur á ísskápinn þannig að ég gat merkt við eftir hverja æfingu. Mjög fljótlega var ég alveg hætt að spá í samninginn af því að mér fannst svo svakalega gaman á æfingum og var í fótbolta í flestum frímínútum í skólanum og missti helst ekki úr æfingu.

Það að alast upp í svona litlu bæjarfélagi hefur marga kosti og ég á ekkert nema góðar minningar frá Hornafirði. Einn af kostunum var að ég gat æft margar íþróttir meðfram fótboltanum eins og fimleika, blak og frjálsar íþróttir en fótboltinn var alltaf númer eitt hjá mér.“

Auk þess að alast upp á Höfn bjó Guðný einnig tæp tvö ár á Vík í Mýrdal áður en hún flutti í Hafnarfjörð þar sem hún hóf meistaraflokksferilinn með FH 2015. Þar lék hún í fjögur ár áður en hún skipti yfir til Vals þar sem hún varð Íslandsmeistari 2019 áður en hún hélt svo til Ítalíu ári síðar.


Tengdar fréttir

Fjórtán dagar í EM: „Ég á sjö frabær systkini“

Vísir telur niður í Evrópumót kvenna í fótbolta sem fram fer í Englandi í júlí og kynnir leikmenn íslenska landsliðsins. Reynsluboltinn og harðhausinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er næst í röðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×