Innlent

Sögulegur leiðtogafundur NATO hefst í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Filipus VI konungur Spánar tekur á móti Joe Biden forseta Bandaríkjanna í Madrid í dag.
Filipus VI konungur Spánar tekur á móti Joe Biden forseta Bandaríkjanna í Madrid í dag. AP/Susan Walsh

Þriggja daga leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins hefst í Madrid á Spáni í dag þar sem reiknað er með tíðindum varðandi aðildarumsókn Svía og Finna að bandalaginu og frekari stuðningi við Úkraínu. Forsætisráðherra sækir fundinn fyrir Íslands hönd.

Björgunarmenn leita enn í rústum verslunarmiðstöðvar í borginni Kremenchuk í Úkraínu sem Rússar gerðu eldflaugaárás á í gær með þeim afleiðingum að 18 manns létust, þeirra á meðal börn. Innanríkisráðherra landsins segir að nú sé 21 saknað eftir árásina en um 60 manns særðust.

Rússar segja að þeir hafi gert árás á vopnageymslu við hlið verslunarmiðstöðvarinnar. Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu segir hiins vegar að verslunarmiðstöðin sjálf hafi verið skotmarkið og að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Leiðtogar NATO eru flestir mættir til Madridar höfuðborgar Spánar þar sem fundur þerra hefst formlega seinni partinn í dag en aðal fundardagarnir eru á morgun og á fimmtudag. Í dag lauk einnig leiðtogafundi sjö helstu iðnríkja heims í Þýskalandi þar sem leiðtogarnir fordæmdu árás Rússa á verslunarmiðstöðina í gær og hétu Úkraínumönnum efnahagslegum og hernaðarlegum stuðningi eins lengi og þörf væri á.

Jens Stoltenberg aðalframkvæmdastjóri NATO ræðir við Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar fyrir leiðtogafundinn í Madrid í dag.AP/Manu Fernandez

Reiknað er með að NATO leiðtogarnir greini frá auknum stuðningi við Úkraínu á leiðtogafundinum í Madrid en þar er einnig vonast eftir tíðindum varðandi aðildarumsókn Svía og Finna að bandalaginu þar sem Tyrkir hafa staðið í veginum.

Jens Stoltenberg aðalframkvæmdastjóri NATO segir fulltrúa ríkjanna hafa fundað í höfuðstöðvum NATO undanfarna daga fyrir hans milligöngu. Þeir muni einnig funda í Madrid í dag. Svíar og Finnar deili virðingu fyrir lögum með NATO ríkjunum og almennu gildismati þeirra.

“Grimmileg innrás Rússa í Úkraínu hefur rofið friðinn í Evrópu. Það er mikið í húfi þannig að það er enn mikilvægara en áður að við stöndum saman. Þess vegna fagna ég aðildarumsóknum Svía og Finna að NATO í síðasta mánuði,” segir Stoltenberg. Nú væri unnið að næstu skrefum varðandi aðildarumsóknirnar.


Tengdar fréttir

Anders­son, Erdogan og Niini­stö funda á morgun

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti munu hittast á fundi á morgun til að ræða umsóknir Svíþjóðar og Finnlands að NATO.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×