Fótbolti

Thibaut Courtois kominn með nýtt húðflúr tileinkað sigrinum á Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thibaut Courtois kyssir Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Real Madrid á Liverpool í úrslitaleiknum á Stade de France 28. maí síðastliðinn.
Thibaut Courtois kyssir Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Real Madrid á Liverpool í úrslitaleiknum á Stade de France 28. maí síðastliðinn. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Belgíski markvörðurinn Thibaut Courtois var öðrum fremur maðurinn á bak við fjórtánda sigur Real Madrid í Evrópukeppni meistaraliða en hann var stórkostlegur í 1-0 sigri Real Madrid á Liverpool í úrslitaleiknum í París í maílok.

Thibaut Courtois varði alls níu skot í úrslitaleiknum þar af hvað eftir annað úr dauðafærum. Enginn markvörður hefur varið fleiri skot í einum úrslitaleik í Meistaradeildinni.

Courtois var kátur eftir leik og sagði þá hafa tekið það til sín þegar menn héldu því fram fyrir úrslitaleikinn að hann yrði niðurlægður af sóknarmönnum Liverpool. Þegar á hólminn var komið þá fundu þeir enga leið fram hjá þessum 202 sentimetra markverði.

Þetta var í fyrsta sinn sem Courtois vinnur Meistaradeildina en hann tapaði úrslitaleiknum með Atlético Madrid árið 2014. Belginn hafði síðan ekki komist í úrslitaleikinn á fjórum tímabilum með Chelsea eða á fyrstu þremur tímabilum sínum með Real Madrid.

Real Madrid hafði unnið Meistaradeildina fjórum sinnum á fimm árum þegar Courtois kom til liðsins sumarið 2018 en nú náði hann loksins að vinna þennan eftirsótta titil.

Courtois fékk ekki aðeins gullmedalíu um hálsinn til að minna sig á þetta eftirminnilega kvöld því í gær greindi hann frá því að hann sé búinn að fá sér nýtt húðflúr.

Courtois lét sérhannað húðflúr þar sem má sjá búið að loka markinu með múrsteinum, skammstöfun hans TC1 og loks sjálfan Meistaradeildarbikarinn. Það má sjá þetta húðflúr hans hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.