Erlent

Búa sig undir slag um þungunar­rof­spillu

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfboðaliði heilsugæslustöðvar í Jackson í Mississippi heldur á skilti um að stöðin sé enn opin og að þungunarrofspilla sé enn lögleg eftir að Hæstiréttur felldi niður rétt kvenna til þungunarrofs á föstudag. Stöðin er sú eina sem gerði þungunarrof í Mississippi en bann við þungunarrofi tekur gildi á næstu dögum.
Sjálfboðaliði heilsugæslustöðvar í Jackson í Mississippi heldur á skilti um að stöðin sé enn opin og að þungunarrofspilla sé enn lögleg eftir að Hæstiréttur felldi niður rétt kvenna til þungunarrofs á föstudag. Stöðin er sú eina sem gerði þungunarrof í Mississippi en bann við þungunarrofi tekur gildi á næstu dögum. AP/Rogelio V. Solis

Hvíta húsið ætlar að reyna að koma í veg fyrir að ríki geti bannað svonefnda þungunarrofspillu í kjölfar Hæstaréttardóms um að konur eigi ekki rétt til þungunarrofs. Búast má við að tekist verði um málið fyrir dómstólum.

Hæstiréttur Bandaríkjanna sneri við tæplega fimmtíu ára gömlu dómafordæmi um að konur hefði stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs á föstudag. Fjöldi ríkja ætlar að banna þungunarrof strax á næstu dögum og vikum eða takmarka verulega aðgang að því. Tugir milljóna kvenna missir þannig aðgang að þungunarrofi í heimaríkjunum sínum á næstunni.

Alríkisstjórnin hefur fá vopn í höndum til að bregðast við dómnum. Hún ætlar hins vegar að reyna að koma í veg fyrir að ríkin geti líka bannað lyfið mifepristone sem hefur verið nefnt þungunarrofspillan í Bandaríkjunum.

Reuters-fréttastofan segir að stjórnin gæti byggt á því að sú staðreynd að Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hafi gefið grænt ljós á notkun lyfsins þýði að ríkin geti ekki bannað notkun þess.

Merrick Garland, dómsmálaráðherra, sagði að ríkin gætu ekki bannað notkun mifepristone á grundvelli þess að þau séu ósammála sérþekkingu FDA á öryggi þess og gagnsemi. Lyfið hefur verið með markaðsleyfi í Bandaríkjunum frá árinu 2000.

Erfitt gæti reynst fyrir ríki sem banna þungunarrof að koma í veg fyrir að konur nálgist lyfið. Það er hægt að kaupa á netinu eða í öðrum ríkjum.

Hópur ríkja hefur þó reynt að takmarka notkun lyfsins. Í nítján ríkjum verða konur að mæta á staðinn til að geta verslað pilluna þrátt fyrir að FDA setji engar slíkar kvaðir á notkun þess.

Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti hæstaréttardóminum sem „öfgafullum“. Auk þess að lofa að taka slaginn um þungunarrofspilluna sagði hann að alríkisstjórnin myndi tryggja að ríki kæmu ekki í veg fyrir að konur ferðuðust til annarra ríkja til að gangast undir þungunarrof.


Tengdar fréttir

Viðsnúningurinn mikil afturför í mannréttindum

Fyrr í dag sneri Hæstiréttur Bandaríkjanna við fordæmi sínu sem hefur tryggt konum rétt til þungunarrofs. Silja Bára Ómarsdóttir prófessor í stjórnmálafræði og sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum segir viðsnúning Hæstaréttar mikla afturför í mannréttindum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.