Fótbolti

Rússar saka FIFA um mismunun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gianni Infantino er forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA.
Gianni Infantino er forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. Getty

Rússneska knattspyrnusambandið RFS og rússneska úrvalsdeildin í fótbolta hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA er sakað um mismunun eftir að FIFA gaf leikmönnum og þjálfurum leyfi til að segja samningum sínum við rússnesk félög lausum.

RFS, rússneska úrvalsdeildin og rússnesk atvinnumannafélög sendu yfirlýsinguna frá sér í gær þar sem samböndin segja FIFA fara þvert á sína eigin stefnu um að halda pólitík fyrir utan íþróttir.

Fyrr í vikunni gaf FIFA leikmönnum sem skráðir eru í rússnesk og úkraínsk lið leyfi til að segja samningum sínum lausum fyrir næsta tímabil og ganga til liðs við erlend félög. Þessar reglur verða í gildi þar til 30. júni á næsta ári.

„Okkur þykir ákvörðunin stangast á við sáttmála FIFA. Hún er í eðli sínu mismunun og hefur slæm áhrif á einn meðlim í stóru fótboltafjölskyldunni sem á ekki sök á aðstæðum. Ekkert samráð eða viðræður við FIFA hafa farið fram varðandi þetta mál,“ stóð í yfirlýsingu rússnesku sambandanna.

„Ákvörðunin grefur undan meginreglum samningsstöðugleika og heiðarlegri samkeppni. Hún lýsir því yfir opinskátt að leikmenn og þjálfarar geti nú virt að vettugi samningsbundnar skyldur sínar.“

Rússnesk knatttspyrnuyfirvöld segja einnig að ákvörðun FIFA muni hafa í för með sér óbætanlegt tjón á rússneska knattspyrnu og að þau muni leita réttar síns til að vernda hagsmuni sína.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.