Erlent

Tveir látnir eftir skotárás í miðbæ Oslóar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tveir eru látnir og að minnsta kosti nítján særðir, þar af eru ellefu alvarlega særðir.
Tveir eru látnir og að minnsta kosti nítján særðir, þar af eru ellefu alvarlega særðir. EPA/Javad Parsa

Tveir eru látnir og að minnsta kosti 19 særðir eftir skotárás á skemmtistaðnum London Pub í miðbæ Oslóar. Lögreglan hefur handtekið einn mann vegna árásarinnar og talið er að hann sé einn að verki. London Pub er vinsæll hinsegin-bar en á laugardaginn verður gleðiganga Oslo Pride gengin.

Korter yfir eitt í nótt að staðartíma bárust lögreglunni í Osló ábendingar um að skotið hefði verið af byssu í miðbæ Osló. 

Rúmum hálftíma síðar tilkynnti lögreglan á Twitter að tveir hefðu verið skotnir og fleiri væru alvarlega særðir. 

Rétt fyrir klukkan tvö birtist svo tilkynning frá lögreglunni um að einn hefði verið handtekinn á vettvangi skömmu eftir árásina.

Fjöldi fólks særður, þrír alvarlega

Hedda Holth, upplýsingafulltrúi Háskólasjúkrahússins í Osló, staðfesti við NRK að nítján hefðu fengið aðhlynningu hjá heilbrigðisstofnunum. 

Þar af hefðu sjö verið lagðir inn á Ullevål-spítala, einn verið sendur til Ahus og að ellefu væru á bráðamóttökunni.

Tore Barstad, talsmaður lögreglunnar og yfirmaður rannsóknarinnar á vettvangi, greindi frá því að þrír væru alvarlega særðir.

Einn handtekinn

Árásin virðist hafa átt sér stað á þremur stöðum, við London Pub, á skemmtistaðnum Herr Nilsen og á skyndibitastað í nágrenninu.

Tore Barstad fer fyrir viðbrögðum og rannsókn lögreglunnar á staðnum.EPA/Javad Parsa

Barstad sagði í viðtali við Aftenposten að vettvangur glæpsins hefði náð frá London Pub að nærliggjandi götu þar sem hinn grunaði var handtekinn nokkrum mínútum eftir að skotárásin byrjaði.

Barstad sagði allt benda til að hinn grunaði hefði verið einn að verki.

Fjölmargir vitni að árásinni

NRK greinir frá því að Olav Rønn­e­berg, blaðamaður fréttamiðilsins, hafi verið vitni að árásinni. Hann segist hafa séð mann koma að staðnum með poka, taka upp byssu og byrja að skjóta.

Fjölmargir voru vitni að árásinni og hefur um 40 vitnum verið safnað saman á hóteli í nágrenninu fyrir skýrslutöku.

Einnig hefur fjöldi fólks safnast saman fyrir utan London Pub með regnbogalitaða fána til að sýna fórnarlömbum árásarinnar og hinsegin samfélaginu stuðning. 

Rohan Sandemo Fernando, upplýsingafulltrúi Oslo Pride, sagði í viðtali við NRK að  framkvæmdastjórn samtakanna hafi virkjað áfallateymi eftir árásina. Þá séu skipuleggjendur í virku samtali við lögregluna og aðra aðila sem koma að málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×