Fótbolti

Arnar Gunnlaugsson: Fer ekki með í sögubókina hvernig sigurinn kom

Hjörvar Ólafsson skrifar
Arnar Bergmann Gunnlaugsson hefur líklega verið áhyggjufullur á hliðarlínunni áður en Kristall Máni skoraði. 
Arnar Bergmann Gunnlaugsson hefur líklega verið áhyggjufullur á hliðarlínunni áður en Kristall Máni skoraði.  Vísir/Hulda Margrét

Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var feginn að hafa náð að landa sigri þegar liðið mætti Inter Escaldes í úrslitaleik um laust sæti í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta karla á Víkingsvellinum í kvöld. 

Þó svo að Arnar Bergmann hafi verið sáttur með sigurinn var spilamennskan ekkert til að hrópa húrra fyrir að hans mati. 

„Við vorum of hægir í fyrirsjáanlegir í fyrri hálfleik og við ræddum það í hálfleik að fá meira flot á boltann og spila hraðar. Þetta var ekki glæsileg frammistaðan en hún dugði til og það er það sem öllu máli skiptir.

Stundum þarf bara að grinda inn úrslitin og þrátt fyrir að þetta hafi ekki verið fallegur fótboltaleikur þá náðum við í sigurinn.

Það fylgir ekki með í sögubókina hvernig við unnum bara að við höfum gert það," sagði Arnar Bergman Gunnlaugsson, þjálfari Víkings eftir leikinn.

„Við náðum að opna þá aðeins betur í seinni hálfleik og það var ljúft að sjá Kristal Mána svífa í teignum og skora markið sem skipti máli. Við þurfum hins vegar að gera miklu betur í næstu leikjum ef við ætlum að ná í hagstæð úrslit þar," sagði Arnar Bergmann enn fremur.

Víkingur mætir Selfossi í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins í næsta leik sínum og í kjölfarið mætir liðið KR í Bestu deildinni. Þar á eftir er fyrri leikurinn við Malmö. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×