Fótbolti

Ísland svo gott sem komið í umspil eftir sigur Hvíta-Rússlands

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hvíta-Rússland vann óvæntan sigur gegn Tékklandi í kvöld.
Hvíta-Rússland vann óvæntan sigur gegn Tékklandi í kvöld. Laurens Lindhout/Soccrates/Getty Images

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er svo gott sem búið að tryggja sér sæti í það minnsta sæti í umspili um laust sæti á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi eftir að Hvíta-Rússland vann óvæntan 2-1 sigur gegn Tékklandi í kvöld.

Viktoriya Valyuk kom Hvíta-Rússlandi yfir gegn Tékkum strax á áttundu mínútu leiksins og rétt rúmum tíu mínútum síðar var hún búin að tvöfalda forystu heimakvenna.

Tereza Szewieczkova minnkaði muninn fyrir gestina eftir hálftíma leik og þar við sat. Niðurstaðan 2-1 sigur Hvíta-Rússlands, en sigurinn lyfti liðinu upp í þriðja sæti C-riðils.

Hvíta-Rússland er nú með sjö stig eftir fimm leiki í þriðja sæti riðilsins, tveimur stigum meira en Tékkland sem situr í fjórða sæti og hefur leikið einum leik meira.

Íslenska liðið trónir á toppi riðilsins með 15 stig eftir sex leiki, einu stigi meira en Holland sem situr í öðru sæti. Vinni Holland sigur gegn Hvíta-Rússlandi næstkomandi þriðjudag er íslenska liðið öruggt með sæti í umspili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×