Fótbolti

Sara semur við Juventus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir með treyju Juventus og númerið 77.
Sara Björk Gunnarsdóttir með treyju Juventus og númerið 77. Juventus.com

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, hefur samið við Ítalíumeistara Juventus.

Sara kemur til Juventus á frjálsri sölu frá Evrópumeisturum Lyon sem hún lék með í tvö ár.

Hafnfirðingurinn skrifaði undir tveggja ára samning við Juventus sem hefur orðið ítalskur meistari undanfarin fimm ár.

Sara, sem er 31 árs, hefur leikið erlendis síðan 2010, fyrst með Rosengård í Svíþjóð, síðan Wolfsburg í Þýskalandi og Lyon í Frakklandi. Og næsti áfangastaður hennar verður Tórínó.

Sara, sem er leikjahæst í sögu íslenska landsliðsins, er á leið á sitt fjórða Evrópumót í næsta mánuði. Ísland er í riðli með Ítalíu í riðli þar sem Sara mætir mörgum af verðandi samherjum sínum. 

Síðan Juventus hleypti kvennaliði af stokkunum 2017 hefur það notið mikillar velgengni. Gamla konan hefur orðið ítalskur meistari fimm sinnum og bikarmeistari tvisvar sinnum. Á síðasta tímabili komst Juventus í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu en tapaði fyrir Söru og stöllum hennar í Lyon, 4-3 samanlagt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.