Fótbolti

FIFA samþykkir stækkun leikmannahópa á HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þær 32 þjóðir sem leika á HM geta valið 26 manna leikmannahópa.
Þær 32 þjóðir sem leika á HM geta valið 26 manna leikmannahópa. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur samþykkt reglubreytingu sem gerir þjóðum kleift að mæta með 26 manna leikmannahóp á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Katar í lok árs.

Þessi reglubreyting rímar við alþjóðlegar keppnir sem haldnar hafa verið undanfarið, en áður höfðu liðin aðeins mátt mæta með 23 leikmenn til leiks á HM áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.

Þá hefur FIFA einnig gefið út að þjóðum sé frjálst að mæta með allt að 15 varamenn til leiks. Það þýðir að enginn sem valinn er í HM-hóp þjóðanna er skilinn út undan, en Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, er meðal þeirra sem hefur kallað eftir þeirri breytingu.

„Mér finnst eins og allir eigi að vera til taks fyrir hvern einasta leik,“ sagði Southgate í apríl.

„Ef það á að fara að stækka leikmannahópana þá þarf að gera það þannig að allir fari í búninginn á leikdegi.“

Þær 32 þjóðir sem hafa tryggt sér þátttökurétt á HM hafa frest til 20. október til að tilkynna hópinn sem fer með á mótið. Heimsmeistaramótið hefst svo 30 dögum síðar þegar Senegal og Holland eigast við.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.