Fótbolti

Ís­lendingar í aðal­hlut­verki í norska bikarnum

Atli Arason skrifar
Alfons Sampsted lagði upp eitt mark í norska bikarnum.
Alfons Sampsted lagði upp eitt mark í norska bikarnum. Getty Images

Það var nóg af íslenskum mínútum í norska bikarnum í fótbolta í dag. Tvö íslenskt mörk ásamt einni stoðsendingu litu dagsins ljós en allir íslensku strákarnir spiluðu á útivelli í umferðinni.

Alfons Sampsted byrjaði inn á hjá Bodø/Glimt sem vann auðveldan 0-5 sigur á Harstad. Alfons lagði upp mark í leiknum áður en honum var skipt af leikvelli á 65. mínútu.

Brynjólfur Anderson Willumsson skoraði eitt marka Kristiansund þegar liðið sigraði Strindheim, 1-3. Brynjólfur var í byrjunarliði Kristiansund og skoraði markið rúmri mínútu áður en hann fór af leikvelli á 52. mínútu.

Hólmbert Aron Friðjónsson, framherji Lillestrøm, var sömuleiðis í byrjunarliði síns liðs sem vann 1-2 endukomusigur gegn Junkeren. Hólmbert skoraði fyrsta mark Lillestrøm í leiknum en honum var skipt af velli á 91. mínútu leiksins.

Brynjar Ingi Bjarnason spilaði allan leikin í hjarta varnar Vålerenga sem vann 3-4 sigur á Brumunddal. Varamaðurinn Aron Dønnum hjá Vålerenga skoraði tvisvar í uppbótatíma síðari hálfleiks til að tryggja liðinu sigur. Viðar Örn Kjartansson var ekki í leikmannahóp Vålerenga

Samúel Kári Friðþjónsson byrjaði á varamannabekk Viking en kom inn á leikvöllinn á 62. mínútu í 1-2 sigri gegn Vard Haugesund. Patrik Sigurður Gunnarsson var ekki í leikmannahóp Viking.

Björn Bergmann Sigurðarson gat ekki tekið þátt í 2-4 útisigri Molde gegn Brattvåg vegna meiðsla.

Bjarni Antonsson lék allan leikinn fyrir Start í 2-3 sigri á Arendal.

Ari Leifsson var í byrjunarliði Strømsgoset sem tapaði 3-2 í framlengdum leik gegn Gjøvik-Lyn á útivelli. Ara var skipt af leikvelli á 72. mínútu leiksins en staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma, 1-1. Strømsgoset er eina Íslendingaliðið sem komst ekki áfram í bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×