Innlent

Hvalbátarnir rákust saman þegar dráttarbátur reyndist of kraftlítill

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hvalur 9 rekst á Hval 8. Þar um borð tókst mönnum á síðustu stundu að koma dekki upp á rekkverkið til að hindra skemmdir.
Hvalur 9 rekst á Hval 8. Þar um borð tókst mönnum á síðustu stundu að koma dekki upp á rekkverkið til að hindra skemmdir. Egill Aðalsteinsson

Neyðarleg uppákoma varð í Reykjavíkurhöfn í dag þegar hvalbátar Hvals hf. voru að leggja frá bryggju til hvalveiða. Dráttarbátur Faxaflóahafna réð ekki við það verkefni að draga fyrri hvalbátinn, Hval 9, frá hinum bátnum, Hval 8, og missti hann frá sér. Það varð til þess að Hvalur 9 rakst bæði utan í Hval 8 sem og skuttogarann Sigurborgu SH.

Dráttarbáturinn Leynir búinn að missa Hval 9 utan í Hval 8.Egill Aðalsteinsson

Það var í hádeginu sem fjöldi fólks mætti á Ægisgarð til að fylgjast með upphafi hvalvertíðar eftir nærri fjögurra ára hlé á hvalveiðum. Byrjað var á því að losa landfestar Hvals 9 sem lá utan á Hval 8.

Upphafið reyndist þó vandræðalegt því dráttarbáturinn Leynir, sem Faxaflóahafnir sendu í það verkefni að draga bátana frá bryggju, reyndist of kraftlítill. Í vestangjólu, sem kom þvert á Hval 9, skorti dráttarbátinn afl til að draga hvalbátinn frá.

Hvalur 9 rakst einnig með skutinn utan í togarann Sigurborgu SH.Egill Aðalsteinsson

Þetta varð til þess að hann missti hvalbátinn frá sér og rak hann hratt í átt að Hval 8. Þar um borð voru menn snöggir til, sáu í hvað stefndi, og náðu að koma dekki á rekkverkið til að hindra skemmdir. 

Hvalur 9 rakst einnig utan í skuttogarann Sigurborgu SH frá Grundarfirði, sem lá við Ægisgarð fyrir aftan hvalbátana.

Dráttarbáturinn Haki búinn að bjarga málum.Egill Aðalsteinsson

Engar sjáanlegir skemmdir urðu á skipunum. Öflugri dráttarbátur var svo fenginn á vettvang, Haki, og náði hann að koma hvalbátunum frá bryggju svo þeir gætu siglt til hvalveiða.

Myndskeið af árekstrinum, sem og frá brottför skipanna, var sýnt í fréttum Stöðvar 2, og rætt við Kristján Loftsson, forstjóra Hvals hf.

Egill Aðalsteinsson kvikmyndar brottför hvalbátanna í dag. Myndirnar voru sýndar í fréttum Stöðvar 2.KMU

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×