Fótbolti

Eiður Smári: Kem ekki í FH með töfrasprota

Andri Már Eggertsson skrifar
Eiður Smári var nokkuð jákvæður í endurkomu sinni sem þjálfari FH
Eiður Smári var nokkuð jákvæður í endurkomu sinni sem þjálfari FH Vísir/Hulda Margrét

FH gerði 1-1 jafntefli gegn ÍA á Norðurálsvellinum í endurkomu. Eiði Smára Guðjohnsen, þjálfara FH, fannst jafntefli vera sanngjörn niðurstaða í erfiðum aðstæðum.

„Mér fannst við byrja leikinn nokkuð vel en það vantaði gæði inn á milli. Aðstæður voru ekki auðveldar en við sýndum mikla þolinmæði marki undir. Það var ekki auðvelt að skora gegn ÍA sem voru þéttir,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen í samtali við Vísi eftir leik. 

Veðrið setti mikið strik í reikninginn og voru aðstæður erfiðar. Eiður var ánægður með vinnusemi liðsins.

„Mér fannst vinnusemin upp á tíu. Það var karakter að koma til baka þar sem við héldum trú og þolinmæði og uppskárum eftir því.“

Davíð Snær Jóhannsson fékk beint rautt spjald í seinni hálfleik en Eiður hafði ekki séð atvikið í endursýningu.

„Ég er ekki búinn að sjá atvikið aftur, hugsanlega var þetta gult en þá hefði hann fengið seinna gula spjaldið. Mér skilst síðan að við hefðum átt að fá víti.“

Þetta var fyrsti leikur FH í endurkomu Eiðs Smára sem taldi sig ekki vera með neinn töfrasprota.

„Það kemur enginn þjálfari inn með töfrasprota. Ég og Sigurvin [Ólafsson] höfum verið hérna í tvo daga og það sem við vildum sjá var liðsheild sem mér fannst við sjá en annars má bæta margt.“

Gunnar Nielsen hefur ekki verið í marki FH eftir landsleikjahlé vegna meiðsla og sagði Eiður að það væri ólíklegt að hann myndi spila næsta leik í bikar en ætti að vera leikfær eftir það.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.