Innlent

Engum verið fylgt úr landi enn sem komið er

Árni Sæberg skrifar
Verkbeiðnalista Útlendingastofnunar til stoðdeildar Ríkislögreglustjóra er nokkuð langur um þessar mundir.
Verkbeiðnalista Útlendingastofnunar til stoðdeildar Ríkislögreglustjóra er nokkuð langur um þessar mundir. Vísir/Vilhelm

Í lok síðasta mánaðar stóð til að vísa alls 197 hælisleitendum úr landi, þar af 44 til Grikklands. Stoðdeild Ríkislögreglustjóra ákvað að byrja á hópnum sem senda átti til Grikklands en enn sem komið er hefur engum verið fylgt þangað.

Það vakti hörð viðbrögð í maí þegar ákveðið var að hefja brottvísanir hælisleitenda á ný eftir langt hlé vegna takmarkana á landamærum flestra landa vegna heimsfaraldurs Covid-19. Til stóð að vísa hátt í þrjú hundruð manns úr landi.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra gaf lítið fyrir gagnrýni og sagði að fólkið hafi mátt vita af því að sá dagur kæmi að því yrði vísað úr landi.

Töluverður fjöldi fólksins sem stóð til að vísa úr landi fékk mál sitt síðan endurupptekið og í lok maí voru 197 hælisleitendur á verkbeiðnalista Útlendingastofnunar til stoðdeildar Ríkislögreglustjóra, sem framkvæmir brottvísanir. Þar af voru 44 sem senda átti til Grikklands og var ákveðið að byrja á þeim hópi, sem var stærstur.

Af þeim 44 voru tvær barnafjölskyldur sem hafa nú fengið efnislega meðferð á sínum málum vegna lengdar dvalar þeirra hér á landi.

Stendur ekki til að fylla leiguflug af flóttafólki

Að sögn Gunnars Harðar Garðarssonar, samskiptastjóra Ríkislögreglustjóra, hefur þó engum verið fylgt úr landi síðan ákveðið var að hefja brottvísanir á ný.

„Það er ekki verið að hlaupa í það að fylla vél af fólki eða leigja einhverja risavél og moka öllum út,“ segir hann.

Gunnar Hörður segir þó að sex einstaklingar úr hópnum hafi ákveðið að fara sjálfviljugir úr landi eftir að hafa verið tjáð að þeir væru hér í leyfisleysi. Í slíkum tilvikum aðstoði stoðdeildin fólk við flutninginn, til að mynda með því að útvega flugmiða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.