Innlent

Land rís enn við Öskju

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Askja í forgrunni. Fjær sjást Herðubreið og Herðubreiðartögl og lengst til hægri sést í Upptyppinga.
Askja í forgrunni. Fjær sjást Herðubreið og Herðubreiðartögl og lengst til hægri sést í Upptyppinga. Mynd/Stöð 2.

Land við Öskju hefur risiðum alls þrjátíu sentímetra frá því að landris fór að mælast við vesturjaðar Öskjuvatns við Ólafsgíga í ágúst í fyrra. Það þýðir að landris hefur verið um 2,5 sentímetrar á mánuði síðan þá. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands og stuðst við mælingar frá GPS stöð, sem er staðsett nærri rismiðjunni. Þar segir að gervihnattamyndir frá því í byrjun september 2021 hafi vel sýnt umfang og miðju rissins. Ekki sé hægt að styðjast við nýjar gervitunglmyndir af svæðinu þar sem snjór komi í veg fyrir að hægt sé að sjá nothæft merki.

Von sé á nýjum gervitunglmyndum í lok þessa mánaðar sem muni gefa skýrari mynd af þróun mála svo lengi sem snjólög trufli ekki úrvinnslu þeirra.

Fram kemur í tilkynningunni að líklegast sé um innflæði kviku að ræða. Módelreikningar bendi til að merkið eigi sér uppruna á um 2 km dýpi í jarðskorpunni. 

Askja er virk eldstöð og þar mælast reglulega skjálftar en síðast gaus í Öskju árið 1961. Reglulegar mælingar sýndu einnig landris á árunum 1970-1972 en hlé varð á þeim mælingum og þegar reglulegar mælingar hófust aftur árið 1983 hafði landið sigið. Síðan þá hefur mælst stöðugt landsig um 1 sm á ári þar til núna. 

Óvissustig er í gildi vegna landrissins í Öskju, en því var lýst yfir í september í fyrra af ríkislögreglustjóra í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra.


Tengdar fréttir

Stór skjálfti í Bárðarbungu

Rétt upp úr klukkan átta í morgun varð jarðskjálfti í sunnanverðri Bárðarbungu sem mældist 4.4 að stærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×