Fótbolti

Óskar Hrafn: Ekkert grín að koma Valsmönnum í kaðlana

Árni Jóhannsson skrifar
Óskar Hrafn gat verið ánægður þrátt fyrir tap
Óskar Hrafn gat verið ánægður þrátt fyrir tap Vísir/Vilhelm

Þjálfari Breiðabliks, Óskar Hrafn Þorvaldsson, var að sjálfsögðu ekki ánægður með úrslitin en hann var ánægður með frammistöðuna og var á því að hann væri ekki í þessu til að finna sökudólga. Hans menn töpuðu í fyrsta sinn í sumar fyrir Val 3-2 en úrslitin réðust í uppbótatíma. Blikar lentu 2-0 undir en unnu sig inn í leikinn og jöfnuðu metin í 2-2. 

Óskar var spurður að því hvernig tilfinningarnar væru eftir að Blikar töpuðu fyrsta leik sínum í sumar. 

„Ég er bara stoltur af liðinu. Þetta frábær leikur hjá okkur en við gerðum okkur þetta erfitt fyrir í fyrri hálfleik en liðið sýndi frábæran karakter. Það er ekkert grín að koma Valsmönnunum í kaðlana þegar þeir eru komnir 2-0 yfir en við gerðum það svo sannarlega. Mér fannst við vera með leikinn í lokin en þeir eru með gæði og refsuðu okkur. Ég hef áður talað um það að það skiptir ekki máli hvernig leikir enda, í grunnin er það frammistaðan sem skiptir máli. Ég hef verið fúll með sigurleiki hjá okkur en ég get ekkert annað en verið gríðarlega ánægður með þessa frammistöðu og með svona frammistöðu þá hefur þú ekkert áhyggjur af því sem kemur á eftir.“

„Það tók okkur smá tíma að finna taktinn í upphafi leiks en ég er ánægður með kraftinn og karakterinn í liðinu eftir að hafa komið okkur í holu í fyrri hálfleik. Það var enginn að fara taplaust í gegnum þetta tímabil. Einn sigur eða tap til og frá skipta á endanum ekki máli. Við fórum ekki of hátt á sigurgöngunni og við munum ekki fara í einhverja djúpa dali þótt við töpum einum leik.“

Óskar var þá spurður hvort mörkin sem liðið fékk á sig trufluðu hann eitthvað fyrst að frammistaðan var honum að skapi.

„Já og nei. Sýndu mér mark sem hefur ekki orðið til eftir mistök. Það er hægt að greina allt og finna sökudólga hér og þar. Við spilum á ákveðinn hátt og því miður þá er það þannig að í síðustu tveimur leikjum á móti Val þá hafa þeir refsað okkur og fengið mjög þægileg mörk. Annað markið var mjög gott og þriðja líka. Við vorum komnir mjög hátt og ætluðum að vinna leikinn, sérfræðingarnir geta greint þetta og fundið einhverja sökudólga en það eru ekki við. Við erum ekki að finna sökudólga í hverju einasta atriði leiksins. 

„Við vinnum saman og töpum saman. Skorum mörkin saman og ég á alveg eins jafn mikinn þátt í þessu og hver annar enda gengur það ekki að lússkoða öll atriði sem fara á móti þér. Það er bara áfram gakk. Ég er virkilega ánægður með þennan leik og fannst hann virkilega góður. Þannig er það bara.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.