Innlent

Braut glas á höfði manns

Bjarki Sigurðsson skrifar
Konan var handtekin og færð á bráðadeild þar sem hlúið var að sárum hennar.
Konan var handtekin og færð á bráðadeild þar sem hlúið var að sárum hennar. Vísir/Vilhelm

Tilkynnt var um líkamsárás á veitingastað rétt fyrir miðnætti niðri í bæ. Kona braut þá glas á höfði manns og var lögregla kölluð til. Konan var komin á annað veitingahús þegar lögregla mætti á staðinn en þar var hún handtekin. Hún var með sár á fingrum og því fyrst flutt til aðhlynningar á bráðadeild áður en hún var vistuð í fangageymslu lögreglu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Tilkynnt var um slys þar sem keyrt hafði verið á ungmenni á rafmagnshlaupahjólum í miðbænum. Voru tvær fimmtán ára stúlkur fluttar til aðhlynningar eftir að keyrt var á þær.

Einnig var tilkynnt um að ökumaður í Garðabæ hafi verið að bakka bíl sínum þegar sex ára barn á hjóli kom í hlið bílsins. Ökumaðurinn þekkti til drengsins og hlúði að honum áður en hann fór með barnið til foreldra sinna.

Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi var lögreglu tilkynnt um þjófnað í verslun í Kópavogi. Karlmaður í annarlegu ástandi hafði mætt þangað, tekið tvær samlokur og borðað þær fyrir framan starfsfólk verslunarinnar. Hann gat ekki borgað og sagðist ætla að koma á morgun og greiða fyrir samlokurnar.

Tilkynnt var um slys í Árbænum í gærkvöldi þar sem maður festi hendi sína milli tjakks og bifreiðar. Hann hafði verið að skipta um dekk á bifreið sinni og þurfti áhöfn sjúkrabifreiðar að losa höndina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×