Fótbolti

Víkingar skoruðu öll mörkin í þriggja marka leik á móti HK | FH með stórsigur gegn Grindavík

Atli Arason skrifar
Svanhildur Ylfa skoraði bæði sjálfsmark og sigurmarkið í leik Víkings og HK. Hér er hún ásamt þjálfara Víkings, John Henry Andrews
Svanhildur Ylfa skoraði bæði sjálfsmark og sigurmarkið í leik Víkings og HK. Hér er hún ásamt þjálfara Víkings, John Henry Andrews Facebook/Víkingur

Þrír leikir fóru fram í kvöld í Lengjudeild kvenna í fótbolta. Víkingar knúðu fram eins marks sigur á HK í Víkini þar sem heimakonur skoruðu öll þrjú mörkin í 2-1 sigri. FH fór auðveldlega í gegnum Grindavík í Kaplakrikanum þar sem heimakonur unnu 6-0 sigur. Fylkir sótti svo þrjú stig á Kópavogsvelli með 0-2 sigri.

Í Víkinni kom Christabel Oduro heimakonum yfir á 33. mínútu og Víkingar voru 1-0 yfir í hálfleik. Á fimm mínútna kafla var komið að Svanhildi Ylfu Dagbjartsdóttur, leikmanni Víkings, sem setti boltann yfir línuna í bæði mörkin. Svanhildur tvöfaldaði fyrst forskot Víkings með marki á 61. mínútu áður en hún varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 66. mínútu og þar við sat. Lokatölur 2-1 fyrir Víking.

Víkingar stökkva yfir HK og lyfta sér upp í 2. sæti deildarinnar, a.m.k. tímabundið, með 15 stig. HK er með jafn mörg stig í 3. sæti en lakari markatölu.

FH var ekki í neinum vandræðum með Grindavík en Elísa Lana Sigurjónsdóttir, Shaina Ashouri, Colleen Kennedy og Ester Rós Arnarsdóttir skoruðu eitt mark hver ásamt tveimur mörkum frá Kristin Schurr í sitthvorum hálfleiknum, 6-0.

FH rígheldur í toppsætið eftir sinn þriðja sigur í röð. Hafnfirðingar eru með 19 stig eftir sjö umferðir. Grindvíkingar eru í 6. sæti með sjö stig.

Á Kópavogsvelli var Fylkir í heimsókn hjá Augnablik þar sem gestirnir skoruðu tvö mörk gegn engu frá Augnablik. Vienna Behnke og Tinna Harðardóttir gerðu mörk Fylkis í sitthvorum hálfleiknum.

Augnablik og Fylkir eru jöfn í 7. og 8. sæti deildarinnar, bæði með 6 stig og sömu markatölu. Augnablik hefur þó skorað fleiri mörk á tímabilinu.

7. umferðin klárast svo á sunnudaginn með tveimur leikjum.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara koma frá heimasíðu KSÍ.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×