Samfylking, Píratar og Viðreisn voru ekki sátt við þá útfærslu sem stjórnarflokkarnir vildu fara í veitingu ríkisborgararéttar á þessu þingi. Flokkarnir voru tilbúnir að fella þinglokasamningana og tefja þinghöld þar til niðurstaða fengist í málið.
Flokkarnir náðu svo saman í gærkvöldi og var samþykkt að taka fyrir 25 af þeim 70 umsóknum sem þinginu hefur borist um ríkisborgararétt. Hinar 45 umsóknirnar verða afgreiddar á fyrstu metrum næsta þings í haust. Ástæðan fyrir því að umsóknirnar verða ekki allar teknar fyrir eins og venjan er er breytt verklag Útlendingastofnunar í þessum málum eftir fyrirmælum dómsmálaráðherra í fyrra.
Alþingi verður að hafa umsagnir Útlendingastofnunar til hliðsjónar til að geta tekið afstöðu til umsóknanna en ráðherrann beindi því til stofnunarinnar að setja þær umsagnir ekki fram fyrir aðrar í röðinni. Þegar þetta komst í fréttir í vor gagnrýndu margir þingmenn stofnunina harðlega fyrir þetta en þeim þykir hún upp á sitt einsdæmi vera að reyna að taka fyrir hendur löggjafans í þessum málum og breyta lögunum. Stofnunin greindi þá frá því að fyrirmæli um þetta hefðu komið frá ráðherranum.
Fréttin hefur verið leiðrétt: Upprunalega stóð að stefnubreytingin hefði verið Útlendingastofnunar sjálfrar en ekki komið frá dómsmálaráðherra.
Í framhaldi var Útlendingastofnun gert að skila umsögnunum til þingsins en nú fyrir þinglok hafa ekki nema 25 af 70 þeirra borist. Þær verða teknar fyrir í dag.
Einnig sömdu flokkarnir um að skipa nefnd í sumar utan um málin til að skoða hvernig best væri að hátta fyrirkomulaginu í framtíðinni. Venjan er sú að Alþingi veiti ríkisborgararétt tvisvar á hverju þingi, rétt fyrir jólafrí og rétt fyrir þinglok.
Miðflokkur fær mál
Þinglokasamningarnir fela það einnig í sér að hver og einn stjórnarandstöðuflokkur fái eitt mál tekið fyrir. Upprunalega áttu allir flokkar nema Miðflokkur að fá mál í atkvæðagreiðslu en Miðflokkurinn fékk það í gegn í gærkvöldi að hann fengi einnig sitt mál til meðferðar.

Það er mál sem formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur lengi haldið á lofti; þingsályktunartillaga um að skipa starfshóp og búa til áætlun um einföldun regluverks.
Gætu klárað í kvöld
Samkvæmt starfsáætlun þingsins á það að ljúka störfum fyrir sumarfrí í kvöld. Mörg mál á þó eftir að klára og ljóst að þingfundur gæti staðið langt fram á nótt.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir í samtali við fréttastofu að það gæti dregist að greiða atkvæði um mörg mál þar til í fyrramálið. Í öllu falli ætti þingstörfum að vera lokið fyrri partinn á morgun, fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní.

„Mér skilst að þingflokksformenn séu búnir að leysa úr þeim ágreiningsmálum sem komu upp í gær og töfðu aðeins fyrir. En í heildina má segja að alveg frá því í síðustu viku hefur andinn í samræðum um fyrirkomulag þinglokanna verið allgott og menn verið tilbúnir að leysa þau vandamál sem upp hafa komið,“ segir Birgir.