Innlent

Skrif­ræði ríkisins hafi aftrað úr­bótum í Reynis­fjöru

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Íris segir þetta erfiðan tíma fyrir fjölskylduna sem hafi aðstoðað aðstandendur þeirra sem hafa látist í fjörunni á síðustu árum.
Íris segir þetta erfiðan tíma fyrir fjölskylduna sem hafi aðstoðað aðstandendur þeirra sem hafa látist í fjörunni á síðustu árum. vísir/einar

Talsmaður hóps landeigenda að Reynisfjöru segir að inngrip hins opinbera hafi aftrað úrbótum á öryggismálum í Reynisfjöru. Það sé sárt að heyra því haldið fram að það séu landeigendurnir sem vilji ekki bæta öryggi í fjörunni. 

Enn og aftur er sprottin upp um­ræða um öryggis­mál í Reynis­fjöru eftir að ferða­maður á átt­ræðis­aldri lést þar síðasta föstu­dag.

Morgun­blaðið hafði það eftir ráð­herra ferða­mála að nefnd sem hún hefði skipað í byrjun árs hefði komist að þeirri niður­stöðu að ríkið hefði heimild til að láta loka stöðum sem taldir eru hættu­legir.

Þar var því einnig haldið fram af ferða­mála­stjóra Ferða­mála­stofu að land­eig­endur stæðu í vegi fyrir úr­bótum á öryggis­málum - eitt­hvað sem þeir þver­taka sjálfir fyrir að sé satt.

„Að reyna að standa undir þessu núna í fjöl­miðlum; að land­eig­endur eða við séum á móti öryggis­að­gerðum er bara rosa­lega sárt. Þetta eru erfiðir tímar. Við erum öll af vilja gerð í sam­vinnu og sam­tal,“ segir Íris Guðna­dóttir tals­maður eins af hópum land­eig­endanna sem búa skammt frá fjörunni.

„Við búum þarna og erum þarna á hverjum degi. Móðir mín er sú sem hefur tekið utan um ekkjur þeirra sem þarna hafa farist og séð til þess að þær fari frá henni í þurrum fötum og reynir að taka utan um þær eins og hún getur,“ segir Íris.

Bróðir hennar er svo björgunar­sveitar­maður og á­búandi á landi í ná­grenni við fjöruna. „Hann er yfir­leitt alltaf fyrstur á staðinn og hefur komið að öllum fjórum dauðs­föllum sem hafa orðið í Reynis­fjöru frá árinu 2007.

Enn ein nefndin en engar aðgerðir

Íris segir að að komin hafi verið góð sátt á milli lög­reglunnar á Suður­landi og land­eig­enda um að setja upp ný skilti með ljósa­búnaði í fjöruna sem vöruðu við því þegar hætta væri á ferð. Þetta var árið 2017.

„Skiltið var til­búið, það átti að fara að setja það upp og þá allt í einu stoppaði málið því búið var að stofna nefnd á vegum ferða­mála­ráðu­neytisins,“ segir Íris.

„Það átti að gera á­hættu­mat og sam­ræma að­gerðir yfir landið. Nú er þetta búið að taka eira en þrjú ár.“

Þegar ljósmyndarar Vísis litu við í Reynisfjöru í vor sáu þeir hvar tvær konur komu sér í mikla hættu með því að hafa klifrað í bergið. Aldan skall á þeim og tók aðra þeirra með sér út í sem náði sem betur fer að forða sér aftur í land.vísir/rax

Síðan hefur ekki verið farið í neinar beinar að­gerðir í Reynis­fjöru fyrir utan skilti sem land­eig­endurnir hafa sjálfir sett upp í ná­grenni hennar.

Ríkið hefur þó eytt 20 milljónum í að hanna öldu­spá­kerfi sem er að­gengi­legt á vef Vega­gerðarinnar en hvergi nýtt annars staðar.

„Og nú skilst mér að búið sé að stofna enn eina nefndina... Getum við ekki bara farið að­eins í að­gerðir?“ spyr Íris og nefnir að bæta þurfi þau skilti sem finna má í fjörunni núna og bæta merkingar enn meira. Hún vill þá að ríkið ráði eftir­lits­mann til starfa í fjörunni.

Spurð hvort hún telji að málið snúist um fjár­magn hjá ríkinu segir Íris:

„Það virðist alla­vega vera til nóg fjár­magn í nefndir, þannig ég eigin­lega bara veit það ekki.“

Því fjár­magni væri betur varið í beinar að­gerðir?

„Tja, hvað værum við að manna mörg stöðu­gildi lengi fyrir 20 milljónir?“ svarar Íris.

Vill aðeins loka hluta fjörunnar þegar við á

Henni þykir þá ó­dýrt að ríkið hafi staðið í vegi fyrir úr­bótum á öryggis­málum vegna þess að það hafi fyrir nokkrum árum sam­ræma að­gerðir sem þessar um land allt en sé nú farið að viðra hug­myndir um að loka fjörunni.

Til greina kemur nefni­lega að loka Reynis­fjöru, að minnsta kosti þegar að­stæður í henni eru sem verstar. Starfs­hópur sem ráð­herra skipaði hefur lokið vinnu sinni sem hefur leitt það í ljós að ríkið hafi fullar laga­heimildir til að loka hættu­legum stöðum, jafn­vel í ó­þökk land­eig­enda.

„Auð­vitað óskum við eftir því að þessi þriggja ára vinna skili ein­hverju og að við getum þá nýtt þetta öldu­spá­kerfi,“ segir Íris.

Hún segir að að­stæður við fjöruna séu mjög mis­jafnar og geti breyst hratt.

„Ég er alveg sam­mála því að þegar að­stæður eru þannig þá þarf að hefta að­gengi að Stuðla­berginu. Þegar sjórinn er kominn alveg upp við hálsa­nefið þá á fólk ekki að vera að klifra í Stuðla­berginu eða hlaupa fram yfir nefið til að reyna að komast inn í hellinn. 

Það þarf að halda fólki frá. En Reynis­fjaran sjálf er ekkert hættu­leg ef þú bara situr uppi í fjörunni og heldur þig fjarri,“ segir Íris sem vill þannig að­eins loka hluta fjörunnar þegar öldu­gangurinn er hættu­legur - þvegna vilji hún mannaða gæslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×