Hinn 72 ára gamli Wenger, sem hefur til að mynda starfað fyrir Alþjóðaknattspyrnu-sambandið, FIFA, síðan hann hætti í þjálfun. Hann var á ráðstefnu á vegum FIFA þar sem hann sagði að Evrópu þyrfti að leggja sitt á vogarskálarnar ef knattspyrnuheimurinn ætlaði ekki að missa af gríðarlegum efnivið sem finnst víðsvegar um heim allan.
Wenger tók Kylian Mbappé, stjörnu París Saint-Germain og franska landsliðsins, sem dæmi.
„Mbappé á rætur að rekja til Afríku en hann ólst upp og æfði í Evrópu. Ef hann hefði verið fæddur í Kamerún væri hann ekki sá framherji sem hann er í dag,“ sagði Wenger og hélt áfram.
„Við erum með Evrópu og svo erum við með restina af heiminum. Síðarnefnda svæðið þarf aðstoð, annars munum við missa af gríðarlegum fjölda efnilegra leikmanna.“