Erlent

Biles á meðal fimleikakvenna sem krefja FBI um milljarð dollara

Kjartan Kjartansson skrifar
Larry Nassar nýtti sér aðstöðu sína sem læknir Michigan-háskóla og bandaríska fimleikasambandsins til að misnota hundruð stúlkna kynferðislega, oft undir því yfirskyni að hann veitti þeim læknismeðferð.
Larry Nassar nýtti sér aðstöðu sína sem læknir Michigan-háskóla og bandaríska fimleikasambandsins til að misnota hundruð stúlkna kynferðislega, oft undir því yfirskyni að hann veitti þeim læknismeðferð. AP/Paul Sancya

Hópur fyrrverandi ólympíufimleikakvenna í Bandaríkjunum, þar á meðal gullverðlaunahafinn Simone Biles, ætla að krefja alríkislögreglunar FBI um meira en milljarð dollara í skaðabætur vegna mistaka hennar í máli Larrys Nassar sem misnotaði hundruð fimleikakvenna.

Nassar situr nú í jafngildi lífstíðarfangelsis fyrir kynferðisbrot gegn fjölda fimleikastúlkna og kvenna. Brotin framdi hann í starfi sínu sem læknir bandaríska fimleikasambandsins og Háskólans í Michigan.

FBI fékk upplýsingar um brot Nassar árið 2015 en aðhafðist ekkert. Nassar gat því haldið áfram að brjóta á stúlkum og konum í meira en ár áður en yfirvöld stöðvuðu hann loksins. Einn yfirmanna FBI sem hafði málið á sinni könnu falaðist meðal annars eftir aðstoð forseta fimleikasambandsins til að fá vinnu og laug síðan um það.

Lögmennirnir sem krefja alríkislögregluna bóta segja að stefnendurnir séu um níutíu talsins. Auk Biles eru þar fimleikastjörnur eins og Aly Raisman og McKayla Maroney sem báðar unnu til gullverðlauna á Ólympíuleikum, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Ef FBI hefði staðið sig í stykkinu hefði Nassar verið stöðvaðar áður en hann fékk tækifæri til að mosnota hundruð stúlkna, þar á meðal mig,“ sagði Samantha Roy, fyrrverandi fimleikakona við Michigan-háskóla.

Alríkislögreglan hefur sex mánuði til þess að bregðast við kröfunni. Bandaríska dómsmálaráðuneytið ákvað fyrir skömmu að það ætlaði ekki að sækja fyrrverandi fulltrúa alríkislögreglunnar til saka fyrir klúðrið við rannsóknina á Nassar.


Tengdar fréttir

380 milljónir dala í bætur til fórnar­lamba Larrys Nassar

Bandaríska fimleikasambandið hefur komist að samkomulagi við nokkur hundruð kvenna sem misnotaðar voru af Larry Nassar, lækni sambandsins, um greiðslu alls 380 milljóna dala, um 50 milljarða króna, í skaðabætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×