Fótbolti

Kane: „Ég elska að skora mörk“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane er næst markahæsti landsliðsmaður Englands frá upphafi.
Harry Kane er næst markahæsti landsliðsmaður Englands frá upphafi. Markus Gilliar/Getty Images

Harry Kane varð í kvöld aðeins annar leikmaður enska landsliðsins frá upphafi til að skora 50 mörk fyrir liðið. Hann er nú aðeins þremur mörkum á eftir Wayne Rooney sem er sá markahæsti í sögu liðsins.

Markið sem Kane skoraði í kvöld tryggði liðinu stig gegn Þjóðverjum í A-deild Þjóðadeildarinnar. Hann skoraði þá af miklu öryggi af vítapunktinum framhjá Manuel Neuer í marki Þjóðverja.

„Það var virkilega góð tilfinning að skora,“ sagði Kane eftir leikinn. „Ég fékk tvö góð færi fyrr í leiknum, það fyrsta fór yfir slána og Neuer varði vel í seinna skiptið. Við héldum áfram og spiluðum okkar besta fótbolta seinasta hálftíman. Virkilega gott að ná inn þessu marki og í rauninni súrt að hafa ekki náð að stela þessu í lokin.“

Eins og áður segir var þetta fimmtugasta mark framherjans fyrir enska landsliðið, en hann eins og alvöru framherja sæmir segist hann elska að skora.

„Ég elska að skora mörk. Ég hef alltaf elskað það og þá sérstaklega fyrir landsliðið. Alltaf þegar ég get hjálpað liðinu þá er ég glaður að geta það.“

„Það var virkilega mikilvægt að sýna hvaða hugarfar við höfum. Við vorum 1-0 undir en sýndum karakter, komumst aftur inn í leikinn og náðum í úrslit. Við vorum að spila á móti virkilega sterku liði Þjóðverja. Við eigum enn eftir að spila mikilvæga leiki, en Heimsmeistaramótið byrjar áður en við vitum af,“ sagði Kane að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×