Fótbolti

Ronaldo í stuði | Martínez bjargaði stigi fyrir Spán

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ronaldo skoraði tvö og lagði upp eitt í kvöld.
Ronaldo skoraði tvö og lagði upp eitt í kvöld. Marcio Machado/Eurasia Sport Images/Getty Images

Tveir leikir fóru fram í A-deild Þjóðadeildarinnar í kvöld. Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk í stórsigri Portúgal á Sviss og Spánverjar náðu naumlega í stig í Prag.

Tveir leikir fóru fram í riðli 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar í kvöld. Tékkar voru með þrjú stig á toppi riðilsins fyrir kvöldið eftir 2-1 sigur á Sviss í fyrsta leik en Spánn og Portúgal voru með eitt stig hvort eftir jafntefli liðanna í vikunni.

Sviss er enn án stiga eftir stórtap, 4-0, fyrir Portúgal í Lissabon í kvöld. William Carvalho kom Portúgal yfir eftir stundarfjórðungsleik eftir stoðsendingu frá Cristiano Ronaldo. Ronaldo skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik áður en Joao Cancelo innsiglaði 4-0 sigurinn um miðjan síðari hálfleik.

Jakob Pesek kom Tékklandi óvænt yfir gegn Spáni eftir aðeins fjögurra mínútna leik í Prag í kvöld. 1-0 stóð fram í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar ungstirnið Pablo Gavira, leikmaður Barcelona, jafnaði fyrir Spán.

Jan Kuchta kom Tékklandi aftur í forystu á 66. mínútu og aftur beið fram í uppbótartíma eftir jöfnunarmarki Spánar. Inigo Martinez, varnarmaður Athletic Bilbao, tryggði Spánverjum þá stig og 2-2 jafntefli.

Úrslit dagsins í Þjóðadeildinni

A-deild, riðill 2:

Tékkland 2-2 Spánn

Portúgal 4-0 Sviss

B-deild, riðill 4:

Serbía 4-1 Slóvenía

Svíþjóð 1-2 Noregur

C-deild, riðill 2:

Kýpur 0-0 Norður-Írland

Kósóvó 0-1 Grikkland

C-deild, riðill 4:

Gíbraltar 0-2 Norður-Makedónía

Búlgaría 2-5 Georgía

D-deild, riðill 2:

San Marínó 0-2 Malta




Fleiri fréttir

Sjá meira


×